Skattmann rumskar á bílasögulegum tímamótum

The image “http://www.fib.is/myndir/ArniMatt.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

Nefnd skipuð af fjármálaráðherra til að endurskoða skattlagningu á bifreiðar og ökutæki almennings kynnti skýrslu sína í gær án þess að ráðuneytið sæi ástæðu til að boða Félag íslenskra bifreiðaeigenda til kynningarfundarins. Hugmyndir nefndarinnar, eða starfshópsins eins og nefndir á vegum ríkis og ráðuneyta kallast þegar nefndarmenn fá greitt fyrir störf sín, fela í sér grundvallarbreytingu á skattlagningu bíla og ökutækja.

a) Í stað vörugjalda sem lagt er á bíla við innflutning kemur stofngjald sem kallast losunargjald. Upphæð gjaldsins á að ráðast af því hversu mikið koltvíildi bílarnir losa pr. ekinn kílómetra. Af bílum sem losa mikið koltvíildi þarf að greiða hátt stofngjald, af þeim sem losa lítið verður stofngjaldið lægra.

b) Í öðru lagi verður hinum árlegu bifreiðagjöldunum breytt og þau lögð á bíla, einnig eftir skráðri CO2 losun bíla pr. kílómetra. (mikil losun - hátt gjald, lítil losun – lágt gjald) Eftir breytinguna kallast bifreiðagjöldin árgjald.

c)  Nýr eldsneytisskattur – kolefnisgjald verður lagt á jarðefnaeldsneyti fyrir bíla. Upphæð þessa skatts á samkvæmt hugmyndum nefndarinnar að ráðast að nokkru af markaðsverði á kolefniskvóta í milliríkjaviðskiptum og að nokkru af peningaþörf ríkissjóðs. Miðað við núverandi ástand myndi þetta gjald með virðisaukaskatti nema sjö krónum á bensínlítrann og átta krónum í dísilolíulítrann.

Af þessu má ljóst vera að í tillögunum eru fólgnar grundvallarbreytingar á skattlagningu bíla landsmanna. Ef þær verða að veruleika í meginatriðum um næstu áramót eins og mun vera hugmynd einhverra innan stjórnkerfisins, þá verður gríðarleg röskun og eignatilfærsla óhjákvæmilegur fylgifiskur breytinganna. Í fréttatilkynningu nefndarinnar kemur fram með beinum hætti að breytingunni er fyrst og síðast beint gegn almenningi og farartækjaeign hans og –notkun, því að engin gjöld losunargjöld, árgjöld og kolefnisskattar verða lögð á flugvélar og skip, og ekkert er heldur minnst á þungaiðnaðinn. Það hlýtur að teljast nokkuð sérkennilegt ef markmið breytinganna er í raun og veru það sem sagt er að það sé – að draga sem mest úr kolefnislosun.

Í fréttatilkynningu nefndarinnar segir að meðalstórir bílar með meðallosun eigi að koma svipað út úr breytingunum og nú, bílar með litla losun betur og bílar með mikla losun verr. Gert ráð fyrir því að ríkissjóður tapi um 1,7 milljörðum króna á breytingunni sem verður á vöru- og bifreiðagjöldunum sjálfum. Það tap muni hins vegar vinnast upp í álagningu kolefnisgjaldsins á ökutækjaeldsneytið þannig að í það heila tekið tapi skattmann ekki neinu.

Vegna hins ofurháa og hækkandi olíuverðs á heimsmarkaði um þessar mundir og efnahagskreppu á Íslandi hlýtur það að vera spurning hversu gæfulegt það er að fara út í svo róttækar breytingar sem hér eru boðaðar. Hvaða áhrif munu þær hafa á atvinnuvegina, lífskjör almennings og afkomu mikilvægra atvinnugreina eins og ferðaþjónustunnar? Hafa þau áhrif verið vegin inn í hugmyndirnar yfirleitt?

Nú er orðið ljóst að mesta breyting sem orðið hefur í rúmlega aldar sögu bílsins í heiminum er að eiga sér stað. Allir helstu bílaframleiðendur Evrópu eru um þessar mundir að boða miklu sparneytnari bíla en hingað til hafa þekkst og með tilkomu nýrra rafhlaða er rafbíllinn að verða samkeppnishæfur við hefðbundna bensín- og dísilbíla. Strax á næsta ári kemur t.d. lúxusbíll frá Mercedes Benz á heimsmarkað. Bíllinn gengur fyrir rafmagni fyrst og fremst en í honum er ljósavél sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti. Eyðsla þessa bíls er sáralítil og aðeins brot af því sem samskonar bílar hafa hingað til eytt af jarðefnaeldsneyti. Aðrir bílaframleiðendur hafa boðað svipaða bíla á allra næstu árum þannig að breytingin yfir í miklu umhverfismildari bíla er þegar komin á fullt og sú þróun verður ekki stöðvuð. Stórlega má draga í efa að breyting sú sem fólgin er í tillögum nefndarinnar verði því til nokkur gagns yfirleitt, heldur þvert á móti.

Athyglisvert er að í þessari 111 blaðsíðna skýrslu er aðeins um einu prósenti hennar varið í það að fjalla um tækniframfarir og tæknibreytingar sem fyrirsjáanlegar eru í bílaiðnaðinum og mögulegar breytingar á íslenska fólksbílaflotanum sem þær hafa líklega í för með sér.
Þá er það einnig athyglisvert að nefndin leggur ekki til neinar kerfisbreytingar á skattaumhverfi atvinnubíla, ekki síst þungaflutningabíla. Eina breytingin sem þar er að finna er að kolefnisgjaldið bætist við eldsneytisverðið. Áður hefur verið minnst á að flugvélar og skip og þungaiðnaðurinn (áliðnaðurinn) skulu verða undanþegin kolefnisgjaldi á eldsneyti. Hvers vegna?