Skattur á nagladekk - aðför að öryggi!

Í tengslum við fréttir m.a. hér á FÍB vefnum um vilja Reykjavíkurborgar að leggja gjald á nagladekk þá er rétt að rifja upp skoðun FÍB á skattlagningu sem getur dregið úr umferðaröryggi.  

FÍB leggur sem fyrr megin áherslu á mikilvægi fræðslu og tekur undir það að margir bíleigendur hafa litla þörf fyrir nagladekk.  

Hitt er einnig ljóst að skattlagning á nagladekk getur dregið úr öryggi þeirra sem aka í erfiðri vetrarfærð sérstaklega utan þéttbýlis.  Hverja á að skattleggja? Bara Reykvíkinga? Sleppa Seltirningar? Á að skattleggja Þorlákshafnarbúa sem sækir vinnu hjá fyrirtæki við Hádegismóa í póstnúmeri 110 í Reykjavík? 

FÍB varar við hugmyndum um að leggja frekari álögur á bifreiðaeigendur og einkum og sér í lagi þegar ætlunin er að fá sveitarfélögum vald í hendur til að skattleggja öryggisbúnað bíla í því skyni að draga úr kostnaði við viðhald vega og gatna.

Félagið ítrekar enn og aftur þær viðvaranir en bendir jafnframt  á að ónegldir vetrarhjólbarðar hafa undanfarin ár verið að batna umtalsvert hvað varðar veggrip í vetrarfæri.  Mikilvægast er að hver og einn geri eigin þarfagreiningu sem miðast við notkun og hámarks öryggi. 

Negld og ónegld vetrardekk hafi bæði sína kosti og sína galla. Höfuðkostur ónegldu dekkjanna er sá að setja má þau undir bílinn fyrr á haustin og taka þau seinna undan að vori heldur en nagladekkin.

Ónegld eru hljóðlátari og rífa ekki eins í slitlag þegar hiti er yfir frostmarki.  Óumdeilt er að negld dekk grípa betur í ís en þau ónegldu. Oft eru hálkublettir á og við vegamót, bæði ísing en líka harðtroðinn og háll snjór.  Ökumenn á „ónegldu“ eiga erfiðara með að bregðast við og í tæka tíð.

Fyrir þá sem aka á ónegldum vetrardekkjum er það öryggismál að visst lágmarkshlutfall umferðarinnar sé á negldum dekkjum þar sem það rífur í ísinn og eykur grip ónegldra dekkja. 

Tæplega tveggja ára finnsk slysarannsókn leiddi í ljós að mikill meirihluti þeirra bíla sem lenda í slysum að vetrarlagi þar sem fólk lætur lífið, eru á ónegldum vetrardekkjum. Skýrastur verður munurinn þegar vegur er ísilagður.

Við þær aðstæður hefðu dauðaslysin orðið 83 prósent færri hefðu slysabílarnir ekki verið á ónegldum vetrardekkjum heldur negldum. 

Rannsóknin var gerð hjá tæknirannsóknastofnuninni VTT í Finnlandi. Rannsökuð voru öll þau banaslys sem orðið hafa að vetrarlagi í landinu á árunum 1997-2012 þar sem við sögu komu fólksbílar og sendibílar.

Öll banaslys sem verða í umferðinni í Finnlandi eru rannsökuð mjög nákvæmlega og allt skráð sem skiptir máli, eins og ástand bílanna og einstakra hluta þeirra, svo sem hjólbarðanna.

Rannsóknin leiddi ennfremur í ljós að ef nagladekk yrðu bönnuð og allir ækju á ónegldum dekkjum að vetrarlagi, myndi dauðaslysum í umferðinni fjölga um 9 á ári að meðaltali. Sænska vegagerðin hefur á liðnum árum talið að notkun nagladekkja sé ekki lengur vandamál.

Samfara þróun sterkara slitlags slíta nýrri nagladekk stórlega minna en „gömlu” nagladekkin sem dregur stórlega úr sliti á vegyfirborði.