Skilagjald af bílum aflagt í Svíþjóð

http://www.fib.is/myndir/Bruni3.jpg


Sænska ríkisstjórnin hyggst hætta núverandi starfsemi sænska endurvinnslusjóðsins fyrir bíla þann 1. júní á næsta ári. Eftir þann tíma verður eyðing ónýtra bíla í Svíþjóð alfarið á ábyrgð bílaframleiðenda eins og Evrópulög gera ráð fyrir. Þau lög kveða á um ábyrgð framleiðenda á bílum sínum frá upphafi til enda eða „vöggu til grafar“ eins og kannski mætti orða það.

Evrópulögin um ábyrgð framleiðenda bíla frá „vöggu til grafar.“ tóku gildi í Svíþjóð 1. janúar árið 1998. Þau snúast m.a. um það að framleiðandi eða umboðsaðili hans ábyrgist að bíl sé eytt, síðasta eiganda eða notanda hans að kostnaðarlausu. Lögin hafa bara til þessa ekki náð til bíla sem fluttir eru inn af öðrum en beinum umboðs- eða samstarfsaðilum framleiðenda sjálfra. Þau hafa heldur ekki gilt um bíla sem skráðir voru áður en lögin tóku gildi 1. janúar 1998.

Lögin um ábyrgð bílaframleiðenda og lögin um sænska endurvinnslusjóðinn hafa gilt samhliða síðan 1998 en samkvæmt frumvarpi ríkisstjórnarinnar munu fyrrnefndu lögin framvegis ná til allra bíla, hvort sem þeir hafa verið fluttir inn af einhverjum öðrum en umboðsaðilum bílaframleiðendanna og sömuleiðis hvort sem þeir eru eldri en frá 1. janúar 1998 eða ekki.

Samkvæmt frumvarpi sænsku ríkisstjórnarinnar mun gamli endurvinnslusjóðurinn þó verða til áfram og peningum úr honum varið til þess að borga fyrir eyðingu bíla frá því fyrir 1989 og til styrkja sveitarfélög til að koma málum sínum í sambandi við gamla bíla og bílhræ á hreint, t.d. með því að styrkja hreinsunarátök.