Skilagjald fyrir gamla bílinn í Þýskalandi - 375 þús. kr.

http://www.fib.is/myndir/G-gamlirbilar.jpg
375 þúsunda kr. skilagjald fengist fyrir þessa bíla í Þýskalandi.

Sá sem vill losa sig og samfélagið við gamla bílinn sinn í Þýskalandi, fær greitt sérstakt skilagjald fyrir bílinn. Þetta skilagjald er 2500 evrur eða 375 þúsund ísl. kr. samkvæmt dagsgengi Seðlabankans 5. febrúar 2009. Til að fá summuna greidda þarf bíllinn að vera fullra níu ára og að hafa verið í eigu viðkomandi í minnst eitt ár.

Þetta raunsnarlega skilagjald er að vísu bráðabirgðaráðstöfun sem gildir frá 14. janúar sl. og út þetta ár. Tilgangurinn með því er að örva bílaiðnaðinn sem mjög hefur verið að dragast saman í kreppunni sem skollin er á.

Þetta háa sérstaka skilagjald er hluti efnahagsráðstafana sem þýska  ríkisstjórnin hefur verið og er að grípa til, til að örva hagkerfið og atvinnulífið. Á öðrum þræði er skilagjaldið tengt umhverfisvernd því að útgreiðsla þess er einnig háð því skilyrði að bíleigandinn fái sér nýjan og umhverfismildari bíl, bíl sem uppfyllir mengunarstaðalinn Euro-4. Skilagjaldinu er því, auk þess að styrkja efnahag og atvinnu í Þýskalandi, ætlað að draga úr koldíoxíðútblæstri.  Samtök þýska bílaiðnaðarins; VDA hafa gagnrýnt skilagjaldið fyrir það að vera óskýrt að mörgu leyti. Ekki hafi verið skýrt nægilega hvernig eigi að standa að útborgun á skilagjaldinu né hverjir eigi að gera það. Það sé heldur ekki á hreinu hvaðan peningarnir skuli koma. Allt slíkt verði að vera á hreinu frá upphafi, annars sé hætta á að gjaldið muni ekki gagnast bílaiðnaðinum sem skyldi.

Frakkar hækkuðu skilagjaldið hjá sér í desember á síðasta ári. Þar er skilagjaldið nú 1000 evrur eða 150 þúsund ísl. kr. Hið hækkaða skilagjald nær til bíla sem eru minnst 10 ára gamlir og eigandi gamla bílsins verður að fá sér nýjan bíl sem gefur frá sér í mesta lagi 160 grömm af koldíoxíði á hvern ekinn kílómetra. Þar er það bílasalinn sem dregur 150 þúsund króna skilagjaldið frá verði nýja bílsins og innheimtir það síðan hjá ríkinu. Sérstaklega er tekið fram í Frakklandi að skilagjaldið eigi að bætast við hugsanlega afslætti og sértilboð hjá söluumboðinu. Bílasölur nýrra bíla megi ekki auglýsa verð bíla að skilagjaldinu frádregnu. Þetta er sérstaklega tekið fram til að draga úr hættu á að bílasölur  séu að stinga skilagjaldinu í eigin vasa að hluta eða öllu leyti.

Þeir sem gagnrýna nýja skilagjaldið í Þýskalandi benda á að reglur um greiðslu þess séu það loðnar að þar sé einmitt hætta á að svindli og misnotkun og að gömlu bílarnir fari bara alls ekki í tætarann heldur sé seldur til Afríku eða A. Evrópu í ofanálag.

Umferðaryfirvöld í Þýskalandi telja a um 16 milljón bílar tíu ára eða eldri séu í umferð í Þýskalandi. Ríkisstjórnin hefur tekið frá 1,5 milljarða evra til að greiða skilagjald fyrir þessa bíla og eyða þeim.