Skógareldar eyðilögðu fornbílasafn

Veðurfar hefur verið harla duttlungafullt í Bandaríkjunum það sem af er árinu og í gríðarmiklum hitum í Texas hafa skógar- og kjarreldar kviknað. Í slíkum eldum eyðilögðust nýlega 175 fornbílar og sígildir bílar, sumir mjög verðmætir.

John Chapman heitir bílasafnarinn en bílarnir sem eyðilögðust voru aðallega bandarískir. Meðal þeirra voru 12 Chevrolet Corvette, einn upprunalegur Shelby Cobra en slíkir bílar ganga á háu verði, Pontiac GTO frá 1966 og fleiri.

Hinn sjötugi bílasafnari býr á gömlum bóndabæ ekki langt frá Houston. Skógareldarnir sem þarna geisuðu náðu að kveikja í útihúsum, þar á meðal skemmu sem hýsti fornbílana 175. Íbúðarhúsið slapp hins vegar lítt skemmt. Frá þessu er greint á fréttavef Houston Chronicle.

Á myndinni hér að ofan bendir John Chapman á brunaleifar Pontiac GTO bílsins frá 1966, Chevrolet pallbíls frá 1957,  Studebaker pallbíls frá 1947 og fleiri bíla. „Maður veit ekki hvort maður á að hlæja eða gráta. Kannski skást bara að hlæja,“ segir Chapman við blaðamann Houston Chronicle.