Skráningar- og skoðunarskylda eftirvagna

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um að taka út ákvæði í nýjum umferðarlögum um skráningar- og skoðunarskyldu léttra eftirvagna. Þetta virðist gert að undirlagi Samgöngustofu. FÍB telur það veigamikið öryggisatriði að skrá og hafa eftirlit með ástandi léttra eftirvagna.

Leggja þarf mat á hönnun, smíði og samsetningu vagnanna og fara yfir raunverulegt burðarþol. Skráning og skoðun tryggir eftirlit með öryggisbúnaði, ljósabúnaði, burðarvirki og tengibúnaði m.m. Þetta aukna aðhald og eftirlit stuðlar að auknu umferðaröryggi. Í flestum nágrannaríkjum okkar eru léttir eftirvagnar skráðir og skoðunarskyldir. Þar eru vegir oftast skárri en hér á landi og hámarkshraði eftirvagna lægri.

Með skráningar- og skoðunarskyldu léttra eftirvagna í umferðarlögum (77/2019) var loks orðið við hvatningu Rannsóknarnefndar umferðarslysa um aukið öryggi í þessum ökutækjaflokki. Innan tveggja mánaða frá gildistöku laganna er ráðuneyti umferðaröryggismála búið að leggja fram drög að frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum sem viðheldur ástandi sem ógnar umferðaröryggi.

 Þrátt fyrir lagabreytinguna 1. janúar 2020 hefur Samgöngustofa ekki hafa breytt verklagi sínu varðandi skráningu eða skoðun eftirvagna sem eru undir 750 kg að þyngd. Það sætir furðu að stofnun sem fer með stjórnsýslu samgöngumála viðhafi verklag sem samræmist ekki umfeðralögum. Frekari rök fyrir skráningu og eftirliti með léttum kerrum:

• Léttir eftirvagnar eru oft heimasmíðaðir sem skapar óvissu um gæði smíðinnar og burðargetu.

• Eftirvagnar standa gjarnan óhreyfðir svo mánuðum skiptir. Við þær aðstæður er hætta á að hjólabúnaður og tengibúnaður, veðrist, tærist og skemmist. Af þeim sökum hafa hjól farið undan eftirvögnum í almennri umferð.

• Reynslan sýnir að töluverður fjöldi eftirvagna í umferð er án ljósabúnaðar þótt hann sé áskilinn.
 
• Mörg dæmi eru um eftirvagna sem ekki eru búnir öryggiskeðju til að festa í ökutækið sem dregur en það er nauðsynlegt öryggisatriði sérstaklega þegar um er að ræða óhemlaðan eftirvagn.

• Samkvæmt 3. grein reglna um tengingu og drátt ökutækja nr. 394/1992 þá ber að setja skráningarnúmer dragandi ökutækis á óskráðan eftirvagn ef vagninn skyggir á númer bílsins. Þetta er væntanlega til þess að hægt sé að greina ökutækið í umferð. Á þessu er fullkominn misbrestur í dag enda flækjustigið hátt. Þetta kallar á að til reiðu sé aukanúmeraplata með númeri bílsins sem dregur. Aukanúmer þarf að panta og borga sérstaklega fyrir. Skráningarskylda eftirvagna leysir þetta vandamál.