Skuggagjöld og vegatollar

http://www.fib.is/myndir/Slysstadur.jpg
Í þeirri umræðu sem nú fer fram um endurbætur á vegakerfinu er talsvert rætt um einkaframkvæmd til að flýta nauðsynlegri aðlögun vegakerfisins að nútímanum og gera það bæði skilvirkara og öruggara. Ekkert er athugavert við að skoða hugmyndir um einkaframkvæmd.

En í tengslum við þessa umræðu um vegakerfið og endurbætur á því, sérstaklega leiðunum út frá höfuðborgarsvæðinu, kemur æ oftar upp sú hugmynd að innheimta veggjöld af þeim sem aka munu á nýjum, betri og öruggari vegum innan höfuðborgarsvæðisins og í grennd við það. Rétt er að vara alvarlega við öllu gjaldtökuhjali. Bifreiðaeigendur eru löngu búnir að borga fyrir betri vegi án þess að fá þá.

Á árinu 2005 voru tekjur ríkisins af bílum og umferð ríflega 47 milljarðar króna.  Tekjurnar á þessu ári verða líklega heldur ríflegri þegar árið hefur verið gert upp.  

Samkvæmt samgönguáætlun renna 13,3 milljarðar króna til vega nú í ár sem er sama upphæð og árið 2005.  Aðeins hluti þessarar upphæðar rennur til nýframkvæmda eða tæplega 5,9 milljarðar króna.  

Aðrir stórir liðir eru rekstur og þjónusta 4,2 milljarðar króna, þar af eru meðtaldir styrkir upp á 1.138 milljón krónur til ferja, flóabáta, sérleyfisfyrirtækja og áætlunarflugs innanlands.  Loks fara ríflega 2,8 milljarðar króna til viðhaldsverkefna.  

Í það heila renna því innan við 13% af tekjum ríkisins af bílum og umferð til nýframkvæmda í vegagerð og vel innan við 20% samanlagt til nýframkvæmda og viðhalds.  

Það má flestum vera ljóst að þetta hlutfall er engum til sóma og þarf að auka það verulega til að tryggja frekari framþróun samfélagsins og auka umferðaröryggi. Enn meiri útgjöld bifreiðaeigenda vegna sjálfsagðra endurbóta í vegakerfinu koma einfaldlega ekki til greina og enginn ætti að ljá máls á slíku. Nóg er þegar tekið.