Skyldi það takast?

Þrír tilraunabílar sem jafn margir hópar danskra háskólanema hafa byggt, eru að hefja keppni í árlegri  sparaksturskeppni í Evrópu sem kallast Shell eco marathon sem fram fer í og umhverfis Rotterdam í Hollandi um þessa helgi. Hópurinn frá danska tækniháskólanum DTU vonast til að bæta heimsmet sitt frá síðasta ári og komast 650 kílómetra á einum lítra af eldsneyti. Eldsneytið er spíri - 96 prósent etanól. Sjá má meir um þessa keppni hér.

http://fib.is/myndir/Kimi-prins.jpg
Jóakim Danaprins kíkir á
kramið í DTU-bílnum.

Í fyrra komst bíllinn frá DTU 612,5 km á lítranum. Þennan ofursparneytna bíl sinn kalla nemarnir Dynamo og er þetta níunda uppfærsla bílsins sem nú er á leið til keppninnar. En til að komast á sjöunda hundrað kílómetra á aðeins einum lítra af eldsneytinu má ljóst vera að ökumaðurinn verður að stíga afar varfærnislega á eldsneytisgjöfina og allur tækni- og vélbúnaður bílsins verður að virka fullkomlega og ekillinn að kunna vel til verka og vera vel æfður í sparaksturskúnstinni.

Sjálfur bíllinn er mjög lágur í loftinu og léttbyggður. Flestu því sem tafið getur loftstrauminn um bílinn í akstri hefur verið reynt að útrýma í fjölda tilrauna í vindgöngum og tölvuhermum. Vélin er 50 rúmsm fjórgengisvél sem hefur verið marg endurbyggð með það að markmiði að öll núningsmótstaða í henni sé sem allra minnst og tölvurnar sem stjórna gangi hennar verið látlaust endurbættar og prófaðar. Í bílnum er svonefndur KERS-búnaður sem eiginlega er kasthjól í lofttæmdum kassa sem vélin en einkum þó hemlarnir snúa á fulla ferð. Snúningsorka kasthjólsins nýtist síðan í akstri þegar vantar viðbótarafl til að drífa bílinn áfram.

Auk DTU-liðsins keppa fyrir hönd Dana lið frá Álaborgarháskóla og frá útibúi Árósaháskóla í Herning á Jótlandi. Nemarnir frá Herning taka nú þátt í Shell Eco maraþoninu í annað skiptið en hópurinn frá Álaborg í hið þriðja. Álaborgarbíllinn er rafbíll sem fær strauminn frá efnarafal. Danska dæluverksmiðjan Grundfos hefur styrkt smíði og endurbætur á Álaborgarbílnum og vonast hópurinn til að nú takist að ljúka keppni, en bíllinn var dæmdur úr leik í keppninni í fyrra.