-Skynsemin ræður?

Margir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna án efa eftir aðdáendaklúbbnum sem landbúnaðarfrömuðurinn og hrossaræktarráðunauturinn Gunnar Bjarnason stofnaði í kring um litla, frumstæða austurþýska alþýðuvagninn Trabant á áttunda áratugi síðustu aldar. Nafn félagsskaparins var -Skynsemin ræður, enda var Traband þá ódýrasti nýi bíllinn sem fáanlegur var á Íslandi.

Síðan þetta var, hafa bílar orðið sífellt tæknivæddari og flóknari og órafjarri Trabantinum sem var sérlega einfaldur svo að nánast hver sem var með lágmarksþekkingu á bílum og bíltækni gat haldið bílnum við með einföldum verkfærum og áhöldum. Margir hafa því horft til horfinnar tíðar með söknuði og vonað að aftur verði byggðir einfaldir og ódýrir bílar, kannski ekki alveg jafn frumstæðir og Trabantinn, en aðeins í áttina kannski.

http://fib.is/myndir/Daciabilar.jpg

Segja má að Dacia bílarnir frá Rúmeníu séu svolítið afturhvarf í þessum skilningi. Renault í Frakklandi sem á vörumerkið, nýtir til framleiðslunnar eldri og einfaldari tækni og búnað án þess þó að ganga gegn gildandi reglum og stöðlum um öryggi og umhverfisáhrif bíla. Dacia bílarnir voru fyrst og fremst hugsaðir sem ódýrir og einfaldir bílar fyrir austurevrópumarkað. En á óvart kom hversu vel Dacia bílum hefur verið tekið í háþróuðustu bílaríkjum Evrópu, eins og í Bretlandi, Þýskalandi og á Norðurlöndunum.

Í Danmörku hafa rúmlega 1.600 Dacia bílar verið nýskráðir á því eina ári sem liðið er frá því að innflutningur hófst á tegundinni. Og nú hefur verið stofnaður einskonar -Skynsemin ræður-klúbbur utan um Dacia bílana í danska konungsríkinu og ætla félagar hans í boði innflytjandans að hittast á einskonar “ættarmóti” Dacia eigenda þann 25. maí. Reiknað var með að á viðburðinn kæmu eigendur um það bil 100 eða þá í mesta lagi 200 Dacia bíla ásamt fjölskyldum sínum en það fór á annan veg. Hátt á fjórða hundrað Dacia bíla höfðu verið skráðir til leiks ásamt eigendum og fjölskyldum þeirra þegar skráningarfrestur rann út þann 1. maí sl. Það þýðir rúmlega fjórði hver Daciabíll í Danmörku mætir á svæðið ásamt eigendum og fjölskyldum þeirra sem verða alls 1.750 talsins.

Viðburðurinn verður við Egeskov-höll á Fjóni þar sem veglegt bíla- og tæknisafn er til staðar og miklir og fallegir garðar og opin svæði sem eru opin gestum og gangandi. Tilefni samkomunnar er það að í lok maí verður eitt ár liðið frá því að innflutningur og almenn sala á Dacia hófst í Danmörku. Innflytjandi Dacia spanderar aðgangseyri inn á svæðið og afhendir vandaða matarkörfu fyrir hvern bíl, en viðburðurinn er skipulagður sem lautarferð (picnic).

Hin mikla þátttaka í þessari skipulögðu Daciaferð að Egeskov höll þykir með nokkrum ólíkindum, í því ljósi að þeir sem kaupa sér ódýra bíla eru sjaldnast að kaupa sér stöðutákn, heldur hvern annan nytjahlut sem ætlað er að uppfylla tiltekna þörf. Reynslan er sú að eigendur slíkra bíla hafa oftast harla lítið tilfinningasamband við bílinn, halda honum bara við en eru ekkert sérstaklega að dekra við hann og bóna í tíma og ótíma. Og þar sem Dacia er nú ódýrasta bílamerkið í Danmörku kemur þessi tryggð eigendanna talsvert á óvart og ýmsir spyrja sig hvort hér sé orðinn til harðsnúinn aðdáendahópur í ætt við það sem þekkist í sambandi við ýmis dýr bílamerki og fornbíla.

Markaðsstjóri Dacia í Danmörku, Genete Rafn, segir við fréttavef FDM að áhuginn og fjöldinn sem skráði sig til ferðarinnar hafi komið mjög á óvart. -Við vildum sýna eigendum Dacia bíla þakklæti okkar fyrir að hafa haft trú á okkur og á bílunum með því að bjóða þeim til þessarar lautarferðar og reiknuðum með einhversstaðar milli 100 og 200 manns. Að 1.750 manns kæmu á næstum fjórða hverjum þeirra 1,600 Dacia bíla sem ekið er á dönsku vegunum, er langt umfram væntingar okkar, segir hún.