Skýrsla væntanleg um Vaðlaheiðargöng

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist í samtali við Morgunblaðið eiga von á skýrslu frá IFS-ráðgjöf um mat fyrirtækisins á Vaðlaheiðargöngum. IFS-ráðgjöf hafi byrjað að vinna að skýrslunni í byrjun desembermánaðar og hann búist við henni á allra næstu dögum, jafnvel fyrir áramót. Í fréttinni segir ráðherra að IFS-ráðgjöf hafi farið mjög rækilega ofan í málið í samráði við alla þá aðila sem að því koma.

FÍB hefur ítrekað vakið athygli á því að þær áætlanir  sem aðstandendur Vaðlaheiðarganga hafa lagt fram um kostnað við gerð ganganna og rekstur og innheimtu veggjalda standast ekki. FÍB er þannig einn þeirra aðila sem að málinu koma. Ekkert samráð hefur hins vegar verið haft við FÍB við gerð þessarar skýrslu sem ráðherra nefnir.

Að mati FÍB verða Vaðlaheiðargöngin ekki fjárhagslega sjálfbær, samkvæmt þeim forsendum sem aðstandendurnir ætla að fara eftir.  Kostnaðurinn mun því falla á ríkissjóð að stórum hluta. Í þeim fjárhagslegu aðstæðum sem nú ríkja þýðir þessi framkvæmd auk þess það að öðrum framkvæmdum í vegakerfinu muni seinka, jafnvel svo árum skiptir.