Slysagildrur í götum ekki lagfærðar vegna fjárskorts

Um­hverf­is- og skipu­lags­svið Reykja­vík­ur­borg­ar undir forystu borgarfulltrúans Hjálmars Sveinssonar hyggst þrengja akbrautir Grens­ás­vegar­ frá Miklu­braut að Bú­staðavegi þannig að einungis  ein ak­rein verði í hvora átt í stað tveggja eins og nú er. Þetta þýðir að önnur akrein hvorrar akbrautar um sig verður gerð að reiðhjólabraut. Áætlaður kostnaður þessara framkvæmda er 205 milljónir króna. Með þessu skal enn framfylgt þeirri stefnu núverandi (þverpólitísks) meirihluta, að þrengja sem mest að bílanotkun og ..... „gera borgina að betri hjólaborg,“ eins og Hjálmar Sveinsson orðaði það í samtali við Morgunblaðið 15. nóvember 2014.

Hættulegar götur

Vegna vanrækslu og rangs og ónógs viðhalds er ástandið á helstu umferðargötum höfuðborgarinnar nú óvenju slæmt. Djúpar rásir og krappar, djúpar holur eru í malbikið hvarvetna sem bæði eru stórháskalegar og valda fjölda vegfarenda bæði lífshættu og eignatjóni. Samgöngustjóri borgarinnar segir aðspurður um ástandið í samtali við við DV í dag, þriðjudag 10. febrúar, að borgin vildi gjarnan sinna viðhaldi betur en skort hafi fjármagn.

Í ljósi þeirra orða hlýtur það að teljast æði sérkennilegt að á sama tíma og fjárskortur hindrar að stórháskalegum slysagildrum í vegum og götum höfuðborgarinnar sé útrýmt, séu til 205 milljónir til að ráðast í raka- og forsendulausar breytingar á Grensásvegi svo ekki sé nú talað um þær breytingar sem þegar er búið að gera á Borgartúninu, Snorrabrautinni, Sæbrautinni og mörgum fleiri götum og allar hafa sannarlega kostað sitt og að ógleymdu Hofsvallagötuævintýrinu sællar minningar