Smart Roadster brátt endurreistur í Bretlandi

http://www.fib.is/myndir/Smart_roadster.jpg
Hópur fjárfesta í Bretlandi hefur undirritað viljayfirlýsingu við DaimlerChrysler um yfirtöku á framleiðslu litla Smart Roadster sportbílsins sem DaimlerChrysler hætti framleiðslu á seint á síðasta ári. Framleiðslutæki, búnaður og annað sem til þarf verður flutt frá Þýskalandi til Bretlands þar sem framleiðslan á Smart Roadster hefst á ný undir nýju nafni og með breyttu útliti

Alls voru byggðir 35 þúsund Smart Roadster bílar á vegum DaimlerChrysler. Framleiðslan stóð aldrei undir sér og vantaði mikið á að svo væri. Reyndar náði framleiðslan hjá Smart yfirleitt aldrei að skila hagnaði og var fyrirtækið endurskipulagt frá grunni á síðasta ári og hætt við nýjar gerðir sem tilbúnar voru í framleiðslu og Roadster sportbíllinn sleginn af. Áherslan er nú eingöngu á tveggja manna borgarbílinn Smart fortwo.

Fjárfestingarfélagið sem nú er að eignaðst framleiðsluréttinn á þessum ódýra, sparneytna og skemmtilega sportbíl heitir Project Kimber. Tímaritið Auto Motor & Sport segir að samningaviðræður séu nú á lokastigi og á næstu mánuðum verði þeir hlutar Smart Roadster samsetningarverksmiðjunnar í Hambach, sem nauðsynlegir eru til að byrja að framleiða bílinn á ný, fluttir til Bretlands. Á sínum tíma buðu eigendur Project Kimber í þrotabú MG-Rover, en urðu að láta í minni pokann fyrir kínversku ríkisfyrirtæki sem nú á MG-Rover.