Smart Roadster sportbíllinn er allur

The image “http://www.fib.is/myndir/Smart_roadster.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Smart Roadster - sleginn af.
Tveggja sæta sport-smábíllinn Smart Roadster heyrir nú sögunni til því að framleiðslunni var hætt sl. föstudag. Einungis þrjú ár eru síðan fjöldaframleiðsla á Smart Roadster hófst. Ástæðan er sú að bíllinn seldist langt undir væntingum þannig að framleiðslan bar sig engan veginn. Þegar síðasti Roadsterinn rann af færibandinu í verksmiðju Smart í Hambach á landamærum Frakklands og Þýskalands höfðu 43 þúsund eintök verið smíðuð. Um 11 þúsund eintök eru enn óseld á lager. Það má því búast við að Smart Roadster bílar fáist á góðu verði og kjörum á næstu vikum og mánuðum í Evrópu.
Smart Roadster var markaðssettur sem sportútgáfa af tveggja manna borgarbílnum Smart Fortwo. Í honum var sama þriggja strokka bensínvélin en öfugt við Fortwo var hún afturí og drifið á afturhjólunum. Afl vélarinnar í Roadster var eflt með túrbínu þannig að hún er 101 hestafl í Roadster. Sjálfur bíllinn var síðan byggður í tveimur útgáfum, hefðbundinni opinni sportútgáfu eða með hörðum aftursleiktum toppi og kallast þannig Roadster Coupé.
Smart er í eigu DaimlerChrysler og hefur reksturinn verið erfiður, enda er það ekkert áhlaupaverk að hleypa af stokkunum nýrri bíltegund. Það mun því hafa verið auðveld ákvörðun hjá stjórn fyrirtækisins að höggva Roadsterinn. Langmesta salan hefur alla tíð verið í upphaflegu gerðinni, litla tveggja manna borgarsnattbílnum Fortwo sem nýtur talsverðra vinsælda meðal evrópskra borgarbúa, enda er hann lipur í borgarþrengslum og hægt að leggja honum nánast hvar sem er. Til hefur staðið hjá Smart að hefja framleiðslu á litlum fjórhjóladrifnum jepplingi en þær fyrirætlanir voru slegnar af sl. vor. Þá er ennfremur óljóst hvort ný gerð af fjögurra manna bílnum Smart Forfour verði nokkru sinni hleypt af stokkunum eins og til stóð að gera 2007 enda hefur salan á Forfour ekki staðið undir væntingum.
En vinsældir litla bílsins Fortwo hafa vaxið jafnt og þétt og því verður megináherslan á hann áfram. Ný og lítilsháttar lengd gerð hans hefur verið boðuð 2007 og verður markaðssett m.a. í Bandaríkjunum í kjölfar óvæntra niðurstaðna markaðsrannsóknar sem sýndi fram á talsverðan áhuga bandarískra borgarbúa á því að eignast bíl af tagi Smart Fortwo.
The image “http://www.fib.is/myndir/SmartFortwo.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Smart Fortwo. Hinn hefðbundni Smart og sá vinsælasti.