Snjóhreinsum bílinn

Félagsmaður á leið til vinnu í morgun greindi okkur frá því að mjög illa snjóhreinsaður bíll hefði verið á ferð í myrkrinu í morgun á svipaðri leið. Ökulag bílsins hafi verið mjög varasamt og hrein heppni að ekki varð slys a.m.k. einu sinni meðan okkar maður sá til bílsins. Ástæðan hafi verið augljós - bíllinn var þakinn þykku snjólagi og á framrúðunni einungis tvö smágöt í snjólagið út um framrúðuna, sem þurrkurnar höfðu náð að mynda. Smá göt hefðu einnig verið gerð í snjóinn og ísinn á hliðarrúðunum fyrir ökumann að horfa út um. Afturrúða og útispeglar hefðu verið ósýnilegir undir snjóbreiðunni og sömuleiðis öll ljós bæði að aftan og framan þannig að aðrir ökumenn sáu bílinn auk þess illa.

FÍB hefur gagnrýnt yfirvöld fyrir að standa kæruleysislega að hreinsun gatna og vega, en það er svo sannarlega ekki á þeirra ábyrgð að hreinsa bílana okkar. Það er skýlaus skylda okkar að hreinsa vel snjó og ísingu af bílnum, af rúðum og speglum til að við sjáum vel út úr bílnum þegar við ökum af stað. Þá ber okkur líka að hreinsa vel frá ljósunum að aftan og framan til að aðrir vegfarendur úti í umferðinni sjái okkur.

Ástæða er til að minna á þetta og hvetja bílstjóra til að gera þetta vel og samviskusamlega. Þetta er mikið öryggismál.