Sólarorkuhleðslustöðvar fyrir 150 Renault ZOE

Renault Zoe rafbíll.
Renault Zoe rafbíll.

Fulltrúar Renault bílaframleiðandans í Frakklandi, borgarstjóri Utrechtborgar í Hollandi og fulltrúar tækni- og orkufyrirtækja undirrituðu í Parísarborg sl. föstudag viljayfirlýsingu um fransk-hollenskt samstarf við að koma á fót neti sólarorkuknúinna hleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla í báðum löndunum. Undirritunin tengdist opinberri heimsókn hollensku konungshjónanna til Frakklands. Verkefnið er liður í svokölluðu fransk-hollensku efnahagsári sem nú stendur yfir. Það mun hefjast í hollensku borginni Utrecht og þar leggur Renault borginni til 150 Renault Zoe rafbíla í áföngum næstu 12 mánuðina.

Utrecht verður tilraunavettvangur fyrir þessa nýju sólar-hleðslutækni sem vonast er til að verði sjálfbær að mestu þegar fram líða stundir og nái til fleiri borga og svæða í bæði Hollandi og Frakklandi. Tengingar hleðslustöðvanna  sem verða settar upp verða 44 kW. Þær verða opnar öllum rafbílanotendum hvort sem þeir aka Zoe eða einhverjum öðrum rafbílategundum. Gæta á þess að þær verði nægilega margar til að ekki myndist biðraðir við þær. Í frétt frá Renault segir að tilgangurinn með þátttöku í verkefninu sé ekki síst sá að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum frá jarðefnaeldsneytisbruna í sjálfbæra orku.