Söluhæsti 4x4 bíllinn í Noregi

Mest seldi fjórhjóladrifni bíllinn í Noregi á fyrsta fjórðungi ársins er ekki hábyggður jepplingur frá Japan eða Kóreu, heldur rennilegur fólksbíll framleiddur í  hinni sólríku Kaliforníu og meira að segja rafknúinn – Tesla S. Engin dæmi eru um það áður í bílasögunni að rafbíll hafi tekið söluforystu í flokki fjórhjóladrifinna bíla. Þetta hlýtur því að teljast sögulegur viðburður.

Bílaframleiðsla Tesla hófst á sínum tíma í Silikondalnum í Kaliforníu með tveggja sæta sportbílnum Tesla Roadster. Sá bíll var reyndar í grunninn Lotus Elise með rafmótor og líþíum rafhlöðum. Síðan kom Tesla S sem er stór og rúmgóður, vandaður og mjög aflmikill og hraðskreiður fólksbíll en líka dýr. Það var síðsumars árið 2013 sem Tesla S kom á markað og skar hann sig nokkuð úr öðrum rafbílum vegna þess að hann var verulega langdrægari en flestir hinna. Nissan Leaf rafbíllinn var um þetta leyti söluhæsti rafbíll heims og söluhæstur í Noregi en Noregur var þá og er enn mesta rafbílaríki heimsins. En þótt Tesla S væri umtalsvert dýrari en Nissan Leaf þá tóku Norðmenn bílnum fagnandi og skaust hann strax upp í annað sætið meðal söluhæstu rafbílanna 2013 næst á eftir Nissan Leaf.

Í fyrra hélt Tesla S örugglega öðru sætinu í Noregi á eftir Nissan Leaf.  Árið í ár byrjaði ekki sérlega bratt hvað varðar sölu á rafbílum. En þegar það tók að spyrjast í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum að fram væri kominn nýr fjórhjóladrifinn Tesla S – eini fáanlegi fjórhjóladrifni rafbíllinn - þá var eins og það væri bíllinn sem Norðmenn hefðu verið að bíða eftir og salan tók mikinn kipp. Fyrstu eintökin komu til Noregs í áttundu viku ársins og seldust strax upp og í marsmánuði voru 1.058 Tesla S AWD nýskráðir og þar með var hinn aldrifni rafbíll búinn að ryðja söluhæsta fjórhjóladrifna bílnum, Toyota RAV4 úr fyrsta sætinu niður í annað. En um leið var það orðið ljóst í lok marsmánaðar að nýskráðir Tesla S AWD rafbílar á fyrsta fjórðungi þessa árs eru 1.283 eða 9,8% allra nýrra fjórhjóladrifsbíla. Um leið er Tesla S AWD næst mest seldi rafbíllinn í Noregi á þessu ári. Sá mest seldi er VW Golf.

Svo virðist sem Tesla verksmiðjan anni vart eftirspurn eftir Tesla S AWD þessa dagana því að á norskri heimasíðu Tesla segir að þeir sem panti bíl nú, geti ekki vænst þess að fá bílinn afgreiddan fyrr en undir lok júní nk.