Söluhæstur í USA sl. 32 ár

Mörgum Evrópubúum finnst illskiljanlegt hversu elskir Bandaríkjamenn eru að stórum pallbílum. Slíkir bílar eru þeir sem mest seljast þar og metið á Ford F-150 sem hefur verið söluhæsti bíll Bandaríkjanna undanfarin 32 ár.

Á bílasýningunni í Detroit sem opnuð var í dag er frumsýnd ný kynslóð þessa vinsæla og rammbyggða bíls. Hinn nýi er vændanlegur á Bandaríkjamarkað á síðasta fjórðungi ársins og þá sem árgerð 2015. Hann er að miklu leyti byggður úr áli og um 300 kílóum léttari en núverandi gerð.

Af öðru sem nýtt er í bílnum er ný 2,7 lítra V6 bensínvél með túrbínu og start-stopp búnaði, en hann er alger nýjung í bandarískum pallbílum. Auk þessarar vélar verða í boði 3,5 lítras V6 vél og svo auðvitað hin gamalkunna fimm lítra V8 vél.

Hinn nýi F-150 verður einnig fáanlegur með nýrri tölvusjón sem m.a. getur sýnt bílinn á skjá í mælaborði ofan frá á ferð, svipað því sem fugl myndi sjá ef hann væri á flugi yfir bílnum. Ennfremur fæst lok yfir pallinn sem hægt er að opna og loka með fjarstýringunni.