Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu á morgun

http://www.fib.is/myndir/Sparkeppnislogo.jpg

Búast má við að sparakstursmet falli á morgun, miðvikudag, þegar hin árlega Sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu verður haldin. Alls eru 22 bílar skráðir til leiks að þessu sinni og keppt er í sjö flokkum. Eingöngu nýir bílar taka þátt í keppninni og flestir af bestu sparakstursmönnum landsins eru meðal þátttakenda. Því má reikna með að gömul met falli hvert af öðru þegar saman koma góð kunnátta í akstri og það nýjasta og besta í bíl- og véltækni. Upphafs- og endastöð keppninnar er bensínstöð Atlantsolíu við Bíldshöfða við Húsgagnahöllina.
 
Bílarnir eru fólksbílar og jeppar af flestum stærðum og gerðum og er þeim skipað í sjö flokka sem fyrr segir. Meðal keppnisbíla eru tegundir og gerðir sem áður hafa komið við sögu og náð frábærum árangri og verður spennandi að sjá hvort nýjustu gerðir þeirra eigi eftir að standa sig betur en fyrirrennararnir gerðu. Forvitnilegt verður að sjá hvernig hinn glænýi og athyglisverði borgarbíll, Toyota IQ, á eftir að spjara sig. Toyota IQ er lítillega stærri en hinn velþekkti Smart frá Daimler. IQ er mjög hugvitssamlega innréttaður þannig að hann rúmar þrjá fullorðna í sæti og eitt barn. Hann er búinn allra nýjustu véltækni og margir bíða spenntir eftir að sjá hversu langt þessi nýi og hagkvæmi bíll nær að  komast á hverjum lítra bensíns.

Sportjeppi af gerðinni Porsche Cayenne er skráður til keppninnar á morgun. Þetta er fyrsti Porsche bíll í bílasögunni sem búinn er dísilvél og því á sinn hátt tímamótabíll. Þá keppir einnig Subaru Outback dísilbíll í fyrsta sinn í hinni árlegu sparaksturskeppni FÍB og Atlantsolíu. Vélin í Subaru bílnum er „Boxer“ dísilvél og sú fyrsta þeirrar gerðar í bíl í heiminum. Af stórum og öflugum bílum öðrum sem þátt taka nú má auk þess nefna Toyota LandCruiser, Audi Q5, SsangYoung Kyron og Lexus. Af þeim minni og sparneytnari má nefna auk fyrrnefnds Toyota IQ; Citroen C1 og C3, VW Golf, Skoda, Ford o.fl.

Fyrsti bíllinn verður ræstur af stað kl. 12.00 á hádegi á morgun, miðvikudag af Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur formanni umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur. Ekið verður austur Þingvallaveg, Grafning og Grímsnes og lýkur fyrri hluta keppninnar með tímatöku við bensínstöð Atlantsolíu á Selfossi. Eftir tímatökuna er ekið rakleitt yfir Ölfusárbrú suður Eyrarbakkaveg og um Þrengsli til Reykjavíkur.

Reikna má með að fyrstu keppnisbílar komi í mark upp úr kl. 14.00 á morgun og úrslit liggi svo fyrir upp úr kl. 15.50 á morgun. Þá fer fram verðlaunaafhending og sigurvegari og sparakstursmeistari ársins verður krýndur.