Spikfeit tryggingafélögin fá aldrei nóg af peningum bíleigenda

Samanburður FÍB á iðgjöldum bílatrygginga á Norðurlöndunum sýnir svart á hvítu hversu langt íslensku tryggingafélögin ganga í iðgjaldaokrinu. Nánar er fjallað um þessa iðgjaldakönnun í nýútkomnu blaði FÍB.

Ekkert annað en okur skýrir að iðgjöld bílatrygginga eru 50-100% hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum.

Svokallaðar vátryggingaskuldir tryggingafélaganna nema rúmlega 100 milljörðum króna. Þessar „skuldir“ eru oftekin iðgjöld sem tryggingafélögin þykjast skulda tryggingatökum til að bæta hugsanleg tjón og liggja peningarnir í sjóðum hjá félögunum. Mestum „skuldum“ hafa þau safnað með ofteknum iðgjöldum af ábyrgðartryggingum ökutækja, 48 milljörðum króna.

Venjulegt fólk kannast við þessar „skuldir“ sem bótasjóði tryggingafélaganna, þ.e. peninga sem ætlaðir eru til að bæta tjón. En tjónin eru aldrei nema brot af þessum sjóðum og tryggingafélögin ávaxta þá sjálfum sér til hagsbóta og borga enga skatta af þeirri ávöxtun. Sífellt bætist svo í sjóðina því ekki linnir oftöku iðgjalda og sjóðirnir eru aldrei gerðir upp.

Alla þessa fjármuni þarf að ávaxta, til viðbótar við 120 milljarða króna eigin fé tryggingafélaganna. En ávöxtunin gengur upp og niður, sum árin er hún góð, önnur ekki. Vasar viðskiptavina hafa því alla tíð þótt öruggasta „ávöxtunarleiðin,“ þangað seilast tryggingafélögin. Þau komast upp með það vegna þess að á milli þeirra ríkir engin raunveruleg samkeppni. Þvert á móti keppast þau við að safna sem mestu peningaspiki í formi sjóðanna og njóta til þess velvildar Fjármálaeftirlits Seðlabankans.

Á hinum Norðurlöndunum ríkir aftur á móti eðlileg samkeppni milli tryggingafélaga.