Sportbíll úr timbri

Það eru ekki bara nýjustu bílarnir sem sýndir eru á bílasýningunni í Frankfurt heldur líka allskonar sérbyggðir bílar, nýir og gamlir, alls kyns tæknibúnaður og hugmyndir, m.a. frá háskólum og sjálfstæðum og framsæknum stofnununm og einstaklingum. Þessi fjölbreytni gerir þessa stærstu bílasýningu í Evrópu spennandi og skemmtilega. Eitt af furðuverkum sýningarinnar sem nú stendur yfir í Frankfurt er sportbíll sem ungverski óperusöngvarinn Peter Szabo og vinir og samstarfsmenn hans hafa smíðað úr tré.

http://fib.is/myndir/Szabo.jpg
Peter Szabo óperusöngvari og
trébílasmiður.

Trébíllinn er auðvitað sérstakur í útliti en afskaplega fagmannlega og fallega byggður, fínpússaður og lakkaður með nokkrum lögum af glæru lakki sem leyfa litatónum viðarins að njóta sín til fulls. Og svo er bíllinn meira að segja gangfær. Hann er að vísu ekki full frágenginn en þó ökufær og búinn aflmikilli V6 bensínvél. Sjá framvindu bílasmíðinnar.

http://fib.is/myndir/Hestvagn.jpg
Tré-hestvagninn - fyrirrennari trébílsins.

Bíllinn er reyndar ekki fyrsta tré-samgöngutækið sem Peter Szasbo hefur byggt ásamt félaga sínum, hönnuðinum og trésmíðameistaranum Ferenczi Zsolt Csaba. Áður hefur hann byggt vandaðan hestvagn og notað hann talsvert við það að aka brúðhjónum frá kirkju til veislu.