Spyker kaupir Saab af GM

Þá hafðist það loksins að fá niðurstöðu um örlög Saab. Á sjöunda tímanum í gær að íslenskum tíma var það tilkynnt að samningar hefðu tekist milli hollensku sportbílasmiðjunnar Spyker og General Motors. Spyker kaupir Saab Automobile og atvinna um það bil 3.500 starfsmanna Saab og álíka margra starfsmanna undirframleiðenda Saab verksmiðjunnar er tryggð í bili að minnsta kosti. En erfitt verkefni bíður – það þarf að koma framleiðslunni og sölunni í gang aftur. Sala og framleiðsla Saab bíla hefur nánast engin verið undanfarna mánuði meðan óvissa ríkti um líf fyrirtækisins.

 Victor Muller forstjóri Spyker og Jan-Åke Jonsson forstjóri Saab héldu blaðamannafund í Stokkhólmi í gærkvöldi þar sem þeir fögnuðu mjög samningnum. Victor Mueller sagði m.a. að sá almenni stuðningur og velvilji í garð Saab sem komið hefði í ljós meðan á löngum og ströngum samningaviðræðum stóð væri einstakur. Viðbrögð almennings bæði í heimalandinu og um allan heim hefðu og sannað rækilega að Saab væri þess virði að bjargast frá dauða og ganga í endurnýjun lífdaga. Saab myndi nú læra að standa á ný á eigin fótum. Það myndi takast því að þetta væri gott fyrirtæki með merkilega sögu, frábært starfsfólk og mikla hönnunar- og tækniþekkingu. Í fréttatilkynningu frá GM segir m.a. að General Motors, Spyker Cars og sænska ríkisstjórnin hafi unnið ötullega að samningi sem tryggja mun þessum merkilega bíl örugga framtíð.

Um einstök atriði samningaviðræðnanna hefur fátt verið gert uppskátt en sænskir fréttamenn telja að það sem fékk GM á endanum til að selja Saab til hins hollenska Spyker sé fyrst og fremst tvennt; Spyker féllst á hærra verð og hærri útborgun ef svo má segja og Spyker losaði sig við rússneska „útrásarvíkinginn“ Antonov, en GM mun hafa sett það sem skilyrði fyrir sölunni til Spyker. Antonov átti 30 prósenta hlut í móðurfélagi Spyker og mun Victor Muller forstjóri Spyker hafa sjálfur keypt Antonov út á jafnvirði 500 milljóna sænskra króna.

Mikil gleði ríkti í Trollhattan, heimaborg Saab, í gærkvöldi. Talsmenn starfsliðs Saab ber mikið lof á þá Victor Muller hjá Spyker og Jan-Åke Jonsson forstjóra Saab sem aldrei lögðu árar í bát, heldur sáu alltaf nýja og nýja möguleika og unnu að björgun Saab alla daga og nætur undir ofurmannlegu álagi. Í dag heimsækir Victor Muller Saab bækistöðvarnar í Trollhattan og má búast við að honum verði þar vel fagnað.