Spyker og Youngman byggja „Saab“

Hollenska sportbílasmiðjan Spyker og hið kínverska Zhejiang Youngman Passenger Car Group hafa sameinast um að framleiða nýja fólksbílategund sem byggð verður á svonefndri Phoenix grunnplötu frá Saab og annarri Saab tækni. Bíllinn verður framleiddur bæði í Kína og í Evrópu. Fréttastofa Reuters greinir frá þessu.

Eins og margir muna var Saab í eigu dótturfélags Spyker þegar fyrirtækið varð gjaldþrota. Youngman hefur allt frá árinu 2010 leitað eftir því að eignast hlut í Saab á móti Spyker og síðan að kaupa þrotabúið eftir að Saab var farið á hausinn. Af hvorugu varð og var þrotabúið fyrr á þessu ári selt kínversk-sænsku félagi sem hyggst framleiða rafbíla í verksmiðjunni í Trollhättan. Af þeim áformum hefur lítið frést síðan.

En allt frá því að Youngman tók að leita eftir aðkomu að Saab hafa forráðamenn Youngman reynt að semja um tæknimálin við GM og náðu seint á síðasta ári samningum um fyrrnefnda Phoenix grunnplötu. Samstarf Spyker og Youngman um hinn nýja bíl verður með þeim hætti að stofnuð verða tvö ný félög um framleiðslu bílsins og Youngman leggur 25 milljón evrur til annars þessara félaga og eignast jafnframt 29,9 prósenta hlut í Spyker.

Nýi bíllinn verður svonefndur Premium-bíll eða gæðabíll í vandaðri og dýrari kantinum og í sameiginlegri tilkynningu Spykers og Youngman segir að hann verði ennþá vandaðri en Saab bílarnir voru lengstum.