Stærri Mini á leiðinni?

http://www.fib.is/myndir/Mini-new-gulur.jpg

Ekki er langt síðan Fiat Group og BMW sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu um að samvinna þeirra í milli væri að hefjast um tæknibúnað fyrir smábíla. Nú hafa evrópskir bílafjölmiðlar það eftir ýmsum undirframleiðendum tæknibúnaðar í bíla að byrjað sé að framleiða íhluti í nýjan stærri Mini sem byggður verður á sömu grunnplötu og næsta kynslóð Alfa Romeo 147 verður byggð á.

Fiat Group hefur verið að rétta rækilega úr kútnum undanfarin ár eftir langt erfiðleikatímabil. Tímaritið Auto Motor & Sport telur meginástæðuna fyrir velgengni Fiat grúppunnar (Fiat, Lancia og Alfa Romeo) vera þá að búið sé að hreinsa rækilega til í grunnplötuhaugnum. Í stað sérstakrar grunnplötu undir nánast hverri einustu bílgerð eru grunnplöturnar nú einungis sárafáar og þar með eru miklu fleiri einstakir hlutar hverrar undirgerðar um sig, nú sameiginlegir. Með þessu hefur framleiðslukostnaðurinn lækkað stórlega og verð bílanna orðið miklu samkeppnishæfara.

Næsta kynslóð Alfa 147 verður byggð á nýrri grunnplötu frá Fiat sem kallast C-Evo. Þessi grunnplata er hönnuð fyrir framhjóladrif og/eða þá fjórhjóladrif. Hin nýja kynslóð Alfa 147 er væntanleg á næsta ári. Óvíst er þó hvort endanlegt nafn verður Alfa 147 eða eitthvert allt annað. Automotive News sem er tímarit bílaiðnaðarins í Evrópu hefur eftir undirframleiðendum íhluta að C-Evo grunnplatan verði ekki bara í hinum nýja Alfa Romeo heldur líka undir nýjum Mini sem verði stærri en núverandi Mini. Tímaritið hefur eftir sömu heimildum að Fiat og BMW séu líka að vinna í sameiningu að grunnplötu undir nýjan bíl í B-flokki (Golf flokknum). Þessi grunnplata verði undir nýjum Fiat Grande Punto, Alfa MiTo og nýrri kynslóð Mini sem væntanleg sé upp úr áramótunum 2012-2013.

Talsmenn Fiat og BMW hafa ekki viljað staðfesta neitt um þessi efni en segja einungis að viðræður milli forsvarsmanna fyrirtækjanna standi yfir og að þeim ljúki ekki fyrr en um áramótin næstu. Þá fyrst sé að vænta frétta.