Stafrænt ferli almenns ökunáms (B-réttinda)

Undanfarið hefur verið unnið hörðum höndum að því markmiði að gera umgjörð fyrir almennt ökunám (B-réttindi) stafræna, allt frá upphafi og fram að verklegu ökuprófi, fyrst og fremst með hagsmuni ökunema fyrir augum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgöngustofu. Stafrænt ferli ökunáms mun jafnframt efla þjónustu og létta lífið fyrir aðra sem að því koma, eins og ökukennara, ökuskóla og aðstandendur ökunema.

Þar sem verkefnið er afar umfangsmikið er því skipt í nokkra áfanga. Með hverjum áfanga færist ferlið stöðugt nær því markmiði að verða að fullu stafrænt frá upphafi til enda. 

Í fyrsta áfanganum er áhersla lögð á einföldun og bætta þjónustu við ökunema við afgreiðslu umsókna og útgáfu stafræns bráðabirgðaökuskírteins. Þá munu ökunemar geta hafið ökunám með rafrænni umsókn í gegnum Ísland.is í stað umsókna á pappír.

Því til viðbótar verða námslok ökunema staðfest á stafrænan hátt sem tryggir að ökunemar geta nálgast stafrænt bráðabirgðakökuskírteini um leið og þeir hafa staðist verklegt ökupróf og náð 17 ára aldri. Áætlað er að fyrsta áfanga ljúki á vormánuðum.

Annar áfangi er beint framhald af vinnu við fyrsta áfanga. Að öðrum áfanga loknum verður stafræn ökunámsbók orðin að miðpunkti ökunámsferilsins. Þar verður námsframvinda ökunema skráð og munu ökukennarar, ökuskólar, ökugerði, próftökumiðstöðvar og aðrir hagsmunaðilar geta skráð upplýsingar jafnóðum í lausnina á rafrænan hátt. Gert er ráð fyrir að þessi áfangi náist í sumarlok.

Þriðji og síðasti áfanginn felst svo í að færa bóklega próftöku yfir á rafrænt form ásamt allri umsýslu í kringum ökupróf. Áætlanir gera ráð fyrir að þessi áfangi náist fyrir áramót.

Stafræn umgjörð um ökunám er viðamikið umbótaverkefni sem felur í sér tækifæri til að stórefla opinbera þjónustu. Er það unnið í samstarfi Samgöngustofu og innviðaráðuneytis við Stafrænt Ísland, Ríkislögreglustjóra og sýslumannsembætti, en að auki er fyrirhugað samráð við ýmsa hagaðila.