Stefan Jacoby til GM

Stefan Jacoby, sem rekinn var úr starfi forstjóra Volvo um sl. áramót, meðan hann var að ná sér eftir hjartaáfall, er kominn í nýtt starf í bílaframleiðslugeiranum, í þetta sinn hjá GM.

Automotive News greinir frá þessu og segir að Jacoby sé frá og með 5. ágúst framkvæmdastjóri alþjóðadeildar GM og sem slíkur ábyrgur fyrir markaðsstefnunni á um 100 skilgreindum markaðssvæðum GM. Hann tók við stöðunni af Tim Lee sem orðinn er forstjóri GM í Kína. Stefan Jacoby heyrir beint undir Dan Akerson forstjóra GM.

Akerson segir að mikill fengur sé fyrir GM að fá Stefan Jacoby til liðs. Hann hafi mikla reynslu og þekkingu sem GM muni njóta góðs af.

Stefan Jacoby var á árum áður í stjórnunarstöðu hjá Volkswagen og þarnæst framkvæmdastjóri mótorsportsdeildar Mitsubishi og forstjóri Mitsubishi í Evrópu. Á þeim árum gerði Mitsubishi út nokkur sigursæl keppnislið í ralli og var eitt þeirra sérlega sigursælt um árabil í einni viðamestu og erfiðustu rallkeppni heims; Dakar rallinu.