Stefnir í að bílasala hér á landi slái fyrri met

Bílasala á Íslandi í október var einstaklega góð og ef fram heldur sem horfir virðist allt stefna í að salan slái fyrr met hér á landi.

Í nýjustu tölum frá Bílagreinasambandi Íslands kemur í ljós að bílasalan á yfirstandandi ári verði á þriðja tug þúsunda nýskráðra bíla.

Í sömu upplýsingum frá Bílagreinasambandinu er að finna að Toyota Yaris er mest seldi bíllinn, alls 721. Toyota Rav4 er í öðru sæti með 631 bíla og í þriðja sætinu er Kia Rio með 574 bíla.

Nýskráðir bílar í október voru 1.114 á móti 909 í sama mánuði í fyrra. Aukning í sölu á fólksbílum fyrstu tíu mánuði ársins nemur rúmum 15%. Alls voru skráðir yfir 19 þúsund bílar á umræddum tíma sem er aukning um 2.541 bíla.

Það skal tekið fram að hlutfall bílaleigubíla í nýskráningum fólksbíla er yfir 40% á fyrstu tíu mánuðum ársins.