Stjórnmálaflokkarnir og samgöngumál

Alþingiskosningar verða haldnar 25. september og munu samgöngumál vafalaust verða í brennidepli sem endranær. Félag íslenskra bifreiðaeigenda óskaði eftir svörum við eftirfarandi spurningum frá þeim framboðum sem bjóða fram í öllum kjördæmum. Flokkarnir brugðust misvel við óskum FÍB og svöruðu fimm flokkar af þeim tíu sem bjóða fram í öllum kjördæmum. FÍB kann flokkunum bestu þakkir fyrir svörin.

Spurningar lagðar fyrir stjórnmálaflokkana fyrir Alþingiskosningarnar 2021.

Sprurning A:

Samkvæmt fyrirliggjandi samgönguáætlun til 5 ára (2020-2024) með breytingum frá því í maí 2021 var aukið við fjárveitingar til nýframkvæmda á vegakerfinu til að bregðast við efnahagslegum afleiðingum Covid-19 heimsfaraldursins. Áætlað er að verja 23.476 m.kr. til nýframkvæmda nú í ár en sú tala fellur í 18.145 m.kr. 2022 og er áætluð komin niður í 14.144 m.kr. árið 2024.

Hver er afstaða þins flokks/framboðs til þessara áætluðu fjárveitinga til nýframkvæmda á vegakerfinu? Er flokkurinn/framboðið sammála áætlunum um tæplega 40% samdrátt í fjárveitingum til nýframkvæmda frá og með 2024 samanborið við fjárveitingar í ár?

 

 Vinstri græn:

Fjárveiting fyrir árið 2021 er hluti af stórátaki í innviðauppbygginu. Markmið hennar meðal annars var að skapa störf í því mikla atvinnuleysi sem skapaðist í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Það var því ljóst frá upphafi að upphæðin sem færi í nýframkvæmdir á vegakerfinu í ár yrði hærri en við erum vön að sjá. Innviðauppbygging og viðhald vegakerfisins er þó mikilvægt á hverjum tíma og þarf að tryggja fjármagn í nauðsynlegar framkvæmdir hverju sinni. Þess vegna er samgönguáætlun endurskoðuð reglulega enda fyrirsjáanleiki til 5 eða 15 ára takmarkaður, sbr. uppkoma faraldursins og áhrif hans á fjármögnun til bættra innviða hvar sem á þá er litið.

VG mun beita sér fyrir því að sá samdráttur sem minnst er á, og markast m.a. af auknum fjárveitingum til annarra framkvæmda við endurskoðun samgönguáætlunar og ríkisfjármálaáætlunar, verði sem minnstur þegar upp er staðið. Vegakerfi okkar er yfir 12.000 km að lengd og mikilvægt að forgangsraða framkvæmdum með hliðsjón af umferðaröryggi, greiðfærum vegum með bundnu slitlag, styttingu ökuleiða, byggðasjónarmiðum og almenningssamgöngum. VG hefur verið í mikilvægu hlutverk í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur við forgangsröðunina.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Samgöngur eru lífæð samfélagsins og leggja þarf áherslu á að allar samgöngur eru mikilvægar, hvort heldur sem er á lofti, láði eða legi. Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á að ráðist verði í róttækar úrbætur í samgöngum með hraðari uppbyggingu og betri nýtingu fjármuna, meðal annars með samstarfsverkefnum ríkis og einkaaðila. Með því er lagður grunnur að meira öryggi, öflugri byggðum, atvinnusköpun og auknum hagvexti.

Vert er að benda á að framlög við vegamála hafa verið stóraukin á síðustu árum og þá ekki síst á þessu ári. Ekki hafa verið settir jafn miklir fjármunir í vegakerfið í lengri tíma.

 Fjármálaáætlun endurspeglar hins vegar fyrst og fremst þær framkvæmdir sem þegar hafa verið ákveðnar og/eða eru þegar í undirbúningi samkvæmt samgönguáætlun. Við endurskoðun samgönguáætlunar að loknum kosningum þarf að endurskoða fjármálaáætlun í samræmi við endurskoðun um nýframkvæmdir og viðhald.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að nýframkvæmdir og viðhald byggi á skýrri forgangsröðun, aukinni burðargetu vegakerfisins, styttingu vegalengda og umferðaröryggi. Bæta þarf þjóðvegi í þéttbýli í góðu samstarfi ríkis og sveitafélaga með það að markmiði að umferðaöryggi aukist. Líta þarf til alþjóðlegra staðla og tækniþróunar um þessa þætti og auka þátttöku einkaaðila án ábyrgðar hins opinbera, en þó í góðri sátt við íbúa. Sjálfbærar, skynsamlegar samgöngur fyrir alla, óháð samgöngumáta, er það sem leggja skal til grundvallar. Fyrirbyggjandi framkvæmdir þar sem slysatíðni er há verði settar í forgang með það að markmiði að koma í veg fyrir banaslys og alvarleg slys.

 Lagningu bundins slitlags á öllum stofnleiðum verði lokið innan fjögurra ára og áfram unnið markvisst að fækkun einbreiðra brúa. Uppfæra þarf eldri vegstaðla og þá sem í gildi eru svo þeir samræmist nýjum vegaframkvæmdum og að umferðaröryggi sé ávallt haft að leiðarljósi.

Vert er einnig að benda á áform um stóraukin framlög til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2019 var gengið frá samgöngusáttmála milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Með honum skal tryggja bættar samgöngur og frelsi einstaklinga þegar kemur að samgöngumáta, hvort sem um er að ræða almenningssamgöngur, almenna bifreiðaumferð, gangandi eða hjólandi. Einn samgöngumáti á ekki að þrengja að öðrum. Mikilvægt er að tryggja arðbæra nýtingu fjármuna þannig að markmið um greiðari samgöngur, aukin lífsgæði og valfrelsi í samgöngum náist.

 Samfylkingin:

 Nei, við erum algjörlega ósammála því og því það er ljóst að það þarf að stíga stór skref til þess að vinna upp þá innviðskuld sem við erumkomin í. Uppsöfnuð viðhaldsþörf í innviðum landsins er fjögurhundruð og tuttugu milljarðar króna á næstu tíu árum samkvæmt skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga sem kom út í febrúar 2021. Þarna er bæði átt við um nýframkvæmdir og þegar kemur að viðhaldi samgöngumannvirkja. Það verður á endanum ódýrara fyrir samfélagið ef við fjárfestum í innviðum strax en bíðum ekki eftir því að innviðaskuldi hækki bara og hækki.

Píratar:

Píratar hafa haft vökult auga með samgönguáætlun á undanförnum árum, þar sem oft er meira um loforð en efndir. Skemmst er að minnast þess þegar Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, afhjúpaði í sumar að samgönguáætlun væri vanfjármögnuð um 1,5 milljarð króna. 

Í kosningastefnu Pírata tölum við því um mikilvægi þess að fullfjármagna samgönguáætlun. Vanræksla innviða er ekkert annað en óbein lántaka, enda ávísun á viðgerðakostnað í framtíðinni. Píratar leggja jafnframt mikinn þunga á loftslagsmál í sinni stefnu og þar munu samgöngurnar leika stórt hlutverk. Píratar tala því fyrir kröfugri innviðauppbyggingu fyrir virka samgöngumáta, til að mynda með því að tengja saman landshluta með hjólastígum. Það myndi stórauka öryggi allra vegfarenda; jafnt hjólandi og gangandi en ekki síst akandi vegfarenda.

 Flokkur fólksins:

 Flokkur fólksins er ekki sammála áætlunum um 40% samdrátt í fjárveitingum til nýframkvæmda í vegakerfinu og er mótfallin þeim. Mikilvægt er að nauðsynlegum nýframkvæmdum sé haldið áfram og stöðugleiki sé í framkvæmdastiginu og fjárveitingum á þessu sviði. Vegaframkvæmdir eru mjög mikilvægar fyrir byggð í landinu, lífsgæði og atvinnulíf á landsbyggðinni, sem og á höfuðborgarsvæðinu. Þær eru einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmar.

Sem dæmi má nefna Sundabraut sem skiptir miklu máli fyrir þjóðina, bæði íbúa höfuðborgarinnar og landsbyggðina, Hún myndi t.d. styrkja verulega stöðu nærliggjandi sveitarfélaga á Vesturlandi sem hluta af atvinnusvæði höfuðborgarinnar. Hún myndi einnig færa möguleg byggingarsvæði fyrir nýja íbúabyggð á Kjalarnesi nær höfuðborgarsvæðinu svo um munar. Lagning Sundabrautar er það mikilvæg vegaframkvæmd og þjóðhagslega hagkvæm að hana ætti að setja í algeran forgang!

Stórefla þarf jarðgangagerð. Jarðgöng eiga að vera sjálfsagður hlutur til að stytta vegalengdir og tryggja færð allt árið. Í dag virðist vera litið á jarðgöng á Íslandi sem fágætan lúxus. Jarðgangnagerð á nokkra ára fresti staðfestir það. Mikilvægt er að nútíminn hefji innreið sína í samgöngumálum á landsbyggðinni. Stefni ætti að vera að á næstu árum sé jafnan unnið að tveimur jarðagangaframkvæmdum í landi samtímis.

Dæmi um mikilvægar jarðgangaframkvæmdir  á landsbyggðinni eru gerð jarðganga á Vestfjörðum og Austfjörðum. Í gegnum Hálfdán milli Bíldudals og Tálknafjarðar (6,1 km) og undir Mikladal milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar (2,8 km). Á Austfjörðum á milli Neskaupsstaðar um Mjóafjörð til Seyðisfjarðar og þaðan upp á Hérað.

Hefja þarf undirbúning að jarðgangnagerð á Tröllaskaga á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar eru á Íslandi tíu jarðgöng í notkun. Lengstu jarðgöngin eru undir Breiðadals- og Botnsheiði (9,1 km) og frá 1996, einbreið þriggja arma og barn síns tíma. Hvalfjarðargöng (5,8 km) eru frá 1998. Bolungarvíkurgöng (5,4 km) eru frá 2009, Héðinsfjarðargöng, samtals 11 km, eru frá 2010, Norðfjarðargöng (7,9 km) frá 2017, Vaðlaheiðargöng (7,5 km) 2018 og Dýrafjarðargöng (5,6 km) 2020. Styttri göng eru Arnardalshamar (30 m) 1948, Strákagöng (800 m) 1967, Múlagöng (3,4 km) 1990, Almannaskarðsgöng (1,3 km) 2005. Lengri er listi jarðgangna á Íslandi ekki og segir það sína sögu.

Til samanburðar er fróðlegt að líta til Noregs, sem er þrisvar sinnum stærra land en Ísland og íbúar Noregs um fjórtán sinnum fleiri. Flatlendi líkt og á Suðurlandi finnst ekki í Noregi. Þegar kemur að fjölda og lengd jarðgangna er munurinn á þessum nágrannaþjóðum stórkostlegur.

Til samanburðar eru í Noregi 1164 jarðgöng (2018) og hefur fjölgað síðan.. Samanlögð vegalengd þeirra er yfir 800 km en 73 af þessum jarðgöngum eru yfir 3000 metra löng. Í Noregi eru 33 neðansjávargöng. Lengstu jarðgöng Noregs eru í Sognsfirði, um 25 km að lengd (Lærdalstunnelen). Jarðgöng eru ekki einungis á landsbyggðinni. Umferðarmestu jarðgöng Noregs eru í miðborg Oslóar (Festningstunnelen) en 77.000 farartæki fara um þau á sólarhring. Til samanburðar má einnig benda á lista yfir jarðgöng í Noregi á vefalfræðiorðabókinni Wikipedia (Liste over veitunneler i Norge) og Wikiwand (Veitunneler i Norge).

Fámenni okkar í stóru landi og ríkidæmi Noregs skýrir ekki þennan mun og hann er hreinlega rannsóknarefni. Munurinn lýsir skorti á skilningi á mikilvægi jarðgangna á Íslandi jafnframt því að sýna mun á byggðastefnu í ríkjunum og skort á stefnumörkun hérlendis.

Mikilvægt er að setja nútímavæðingu samganga á landsbyggðinni og átak í samgöngumálum kröftuglega á dagskrá. Það verður ekki gert með 40% samdrætti í fjárveitingum til nýframkvæmda.

Spurning B:

Lög um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir voru samþykkt á Alþingi 29. júní 2020. 55.6% þingmanna samþykktu lögin, 30,2% greiddu ekki atkvæði, 8 þingmenn voru fjarverandi en aðeins einn þingmaður greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Lögin snúast um að fjárfestar fjármagni tiltekin umferðarmannvirki og fái í staðinn tekjur af notkun þeirra. Með aðkomu fjárfesta verða framkvæmdirnar hins vegar dýrari en ef ríkissjóður stendur að fjármögnuninni.

Fjárfestar sem taka þátt í samvinnuverkefnunum þurfa að fá áhættuþóknun sem ríkið þarf ekki. Vegtollar eiga að standa undir endurgreiðslum og arðgreiðslum til fjárfesta næstu 30 árin, með tilheyrandi innheimtukostnaði og virðisaukaskatti.

Í skýrslu starfshóps samgönguráðherra um leiðir til fjármögnunar vegaframkvæmda frá apríl 2019 er eindregið mælt með því að ríkissjóður fjármagni flýtiframkvæmdir í vegamálum. Þar segir: „Æskilegt er ... að fjármagna flýtiframkvæmdir með viðbótar ríkisútgjöldum eða breyttri forgangsröðun í ríkisútgjöldum. Sú leið er hagkvæmari fyrir ríkið en aðrir kostir vegna lægri fjármagnskostnaðar.“

Fram kemur að vegna tilfærslu á áhættu og hærri fjármagnskostnaðar einkaaðila hafi reynslan verið sú í Evrópu að samvinnuverkefni hafa kostað 20-30% meira en verkefni fjármögnuð með hefðbundinni aðferð, þ.e. af ríkissjóði. Fram kemur í skýrslunni að hugmyndir um aðkomu einkafjárfesta að vegaframkvæmdum séu til komnar vegna ósveigjanleika laga um opinber fjármál.

Hver er afstaða þíns flokks/framboðs til samvinnuverkefna um samgönguframkvæmdir og innheimtu vegtolla í tengslum við uppbyggingu innviða?

 

Vinstri græn:

Vinstri græn eru ekki mótfallin innheimtu vegtolla ef möguleikinn á annari leið þar sem ekki þarf að borga fyrir akstur er til staðar. Þessi leið var farin til dæmis við gjaldtöku í Hvalfjarðargöngunum og nú í Vaðlaheiðagöngum þar sem greið hjáleið er langoftast möguleg. Fyrir löngu voru vegatollar innheimtir af ríkisframkvæmd við gerð hins steypta Keflavíkurvegar og þótti vel ásættanlegt. Hins vegar er ekki réttlætanlegt nú orðið að innheimta vegtolla að mati Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs ef það er um veg sem er eina ökuleiðin. Lögin sem vísað er til fjalla um svokallaðar PPPframkvæmdir og snúast nú um stundir um fáein skilgreind verkefni af mörgum og stórum verkefnum.

Framkvæmdirnar eru samvinnuverkefni ríkisins og fjárfesta og hvert mannvirki gengur til ríkisins að loknum 20 árum. Sú staðreynd er eitt af þeim skilyrðum sem VG telur þurfa að gilda. Hin blandaða leið við fjármögnun og stýring Vegagerðarinnar og ráðuneytis dregur mjög úr líkum á að staðhæfingar um dýrari framkvæmdir en ella (miðað við erlend einkaverkefni) fái staðist. VG hefur líka bent á að hóflegir vegtollar taki meðal annars mið af því að vera fremur lítill hluti af raunkostnaði aksturs um lengri leið af tveimur þegar sú styttri, sem er tollskyld, er til reiðu. Auk þess eru úrbætur svo sem vegastyttingar, jarðgöng og nýjar brýr mikilvægur þáttur umbóta í umhverfis- og loftslagsmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Ráðast þarf í flýtiframkvæmdir í samgöngum á grundvelli fjölbreyttari fjármögnunar og samstarfs við einkaaðila, en þannig er hægt að ná fram hraðari uppbyggingu samgöngumannvirkja. Sundabraut er gott dæmi um aðkallandi og nauðsynlega framkvæmd sem hægt væri að vinna með þeim hætti.

 Samfylkingin:

Samfylkingin setur varnagla við gjaldtöku á almennar akstursleiðir íbúa landsins í sínu nærumhverfi og horfir í því samhengi til reynslu Norðmanna í þeim efnum þar sem veggjöld mæta vaxandi andstöðu almennings. Samfylkingin hallast ekki að því að grunninnviðir í vegakerfinu séu fjármagnaðir með þessum hætti og án þess að vandaðar úttektir hafi verið gerðar og samráð haft við hagsmunaaðila á viðkomandi svæðum.

Píratar:

Píratar báru spurninguna um innheimtu vegtolla undir grasrót flokksins árið 2019. Skilaboð grasrótarinnar voru skýr: Vegtollum til að fjármagna samgönguframkvæmdir var nær einróma hafnað. Af þeim sökum hafa Píratar andmælt slíkum hugmyndum og hafa ekki í hyggju að auka veg vegtolla í samgöngum á Íslandi.

 Flokkur fólksins:

 Samgöngu- og innviðaframkvæmdir á fyrst og fremst að fjármagna með skattfé enda eru skattar á ökutæki hérlendis háir. Ríkið gæti einnig gefið út skuldabréf (samgöngubréf) til að fjármagna vegaframkvæmdir. Hvati er til að kaupa hlutabréf og hann ætti að ná til ríkisskuldabréfa, sem eru áhættulaus og þetta væru skuldir ríkisins í eigin gjaldmiðli. Skortur er á fjárfestingakostum á Íslandi og þetta yrði góð viðbót.

Hvalfjarðarmódelið mætti nota við fjármögnun ákveðinna vegaframkvæmda til að flýta þeim en þá þarf að vera valkostur á annarri leið. Það kæmi til greina við Sundabraut til að flýta framkvæmdum en þá með miklum afsláttarkjörum fyrir íbúa Vesturlands, til dæmis mætti hafa veggjaldaáskriftir frádráttarbærar frá skatti. Aðalatriðið er að Sundabraut þolir ekki meiri bið.

Mikilvægt er að líta á samgönguframkvæmdir sem fjárfestingu sem örvar atvinnulífið og efnahagslífið. Þær eru t.d. mikilvægar fyrir ferðaþjónustu, sem er ein mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar.  Bættar vegasamgöngu geta opna ný svæði fyrir ferðamönnum. Með Sundabraut myndi t.d. auka aðgengi ferðamanna að Vesturlandi aukast til muna. Í dag fara langflestir erlendra ferðamanna sem koma til landsins til Suðurlands, Gullna hringinn o.fl. Hlut Vesturlands og Norðurlands í ferðmannaþjónustu þarf að auka stórlega og það er fyrst og fremst gert með bættum vegasamgöngum og auknu aðgengi ferðamanna.

Auk Sundabrautar þarf malbikaðan veg um Uxahryggi til að fá ferðmannastraum á milli Þingvalla og sögustaða Borgarfjarðar. Hringur fyrir ferðmenn um Vesturland á að vera jafn vinsæll og Gullni hringurinn. Náttúrufegurð og sögustaðir Vesturlands hafa upp á allt að bjóða til að svo verði.

 

Hefur niðurstaða starfshóps samgönguráðherra um að samvinnuverkefni í Evrópu kosti 20-30% meira en verkefni fjármögnuð af ríkissjóði einhver áhrif á afstöðu þíns flokks/framboðs til samvinnuverkefna?

 

Vinstri græn:

Vinstrihreyfingin grænt framboð telur fyrsta kost að verkefni séu fjármögnuð af ríkissjóði ef kostur er. Ef brýn flýtiframkvæmd er samvinnuverkefni ríkis og fjárfesta, eins og lögin gera ráð fyrir, eru þau raunhæf, einkum ef allir þættir eru teknir til greina, svo sem daglegt, fjárhagslegt hagræði fyrir almenning og fyrirtæki, tímasparnaður í akstri, rekstrarsparnaður ökutækja á ársgrunni, nauðsynleg umhverfis- og loftslagsáhrif og jákvæð byggðaþróun. Ef til kemur aukinn kostnaður að umtalsverðu marki, verður að meta hann í ljósi þessara atriða en ekki einblína á excel-skjal fjármagnshreyfinga, inn og út.

Sjálfstæðisflokkurinn:

Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að við ákvörðun vegaframkvæmda verði gerðar kröfur um arðsemi en um leið verði litið til fleiri þátta s.s. umferðaröryggis, en einnig hugsanlegs hagræðis fólks og fyrirtækja vegna betra vegakerfis, og styttri ferðatíma og aukinna lífsgæða.

Samfylkingin:

Á það skortir, t.d. í Samgönguáætlun 2020-2024 að gerðar hafi verið  ábatagreiningar, greiningar á greiðsluvilja, félagsleg áhrif o.fl. Samfylkingin hefur einnig bent á að mikilvægt sé að Alþingi skilgreini nánar hvað felst í hugtakinu samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum og að það sé skýrt í hvaða tilvikum framkvæmd getur fallið undir þessa skilgreiningu með tilliti til aðkomu ríkissjóðs.

 Píratar:

Já, niðurstaða starfshópsins leggur ríkari kröfu á stjórnvöld að rökstyðja hvernig önnur áhrif þess að ráðast í samvinnuverkefni vegi upp á móti þessu kostnaði.

 Flokkur fólksins:

Sjá umfjöllun í svörum hér að ofan um fjármögnun.