Stjórnvöld bregðist tafarlaust við bágu ástandi vegakerfisins

Í skýrslu sem Samtök Iðnaðarins kynnti á fundi í Hörpu í dag kemur fram að stórir hlutar þjóðvegakerfisins uppfylli ekki lágmarksviðmið um slitlag og víða um land séu hættulegir vegkaflar. Fram kemur að óbreyttu er ekki búist við að þetta lagist mikið á næstu tíu árum. Þess er krafist að stjórnvöld bregðist tafarlaust við bágu ástandi vegakerfisins. 

Í nýrri skýrslu hagsmunasamtakanna um fjárfestingu í innviðum segir að heilt yfir sé illa komið fyrir innviðum landsins og þörf á 420 milljarða fjárfestingu til að koma þeim í viðunandi horf. Í skýrslunni kemur fram uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins er talin nema 160 -180 milljörðum. 

Í skýrslunni kemur fram að Vegakerfi Íslands er tæplega 26.000 km langt og þar af eru um 8.000 km með bundnu slitlagi. Vegakerfi landsins er skipt í þjóðvegi, 12.900 km, sem eru á forræði Vegagerðarinnar og sveitarfélagavegi, 12.800 km, sem eru vegir innan þéttbýlis sem ekki teljast þjóðvegir og eru þeir í umsjá sveitarfélaga.

Vegakerfið samanstendur af mörgum ólíkum eignum sem hafa mismunandi líftíma og þarf að viðhalda. Sumar þessara eigna verða fyrir beinu álagi umferðar og aðrar ekki. Við mat á uppsafnaðri viðhaldsþörf vega er gengið út frá því að líftími slitlaga sé að meðaltali 10 ár en burðarlög hafi 25 ára líftíma. Líftími styrktarlaga er metinn vera 50 ár.

Líftími brúa og jarðgangna er talin vera 70 ár. Fjárþörf vegna reglubundins viðhalds þjóðvegakerfisins er metin vera um 15 milljarðar króna á ári. Fjöldi vega er kominn á tíma og ekki hefur tekist að sinna viðhaldi og endurnýjun nægilega vel. Kostnaður við að koma þjóðvegakerfinu upp í ástandsflokk 4 er metin 110 milljarðar króna sem er endurmetið og hækkað nokkuð frá mati 2017. Undanfarin ár hafa fjárveitingar til viðhalds og nýbygginga vega verið að hækka en þær voru lægri áratuginn þar á undan.

Í skýrslunni kemur ennfremur fram að samkvæmt samgönguáætlun 2020–2034 er áformað að verja um 11 milljörðum króna á ári til viðhalds á þjóðvegakerfinu á þessu 15 ára tímabili. Uppsöfnuð viðhaldsþörf mun því að líkindum ekki minnka á tímabilinu en þrátt fyrir það er talið að ástand þjóðvega verði svipað í lok þess.

Framtíðarhorfur þjóðvega eru því metnar stöðugar. Miðað við þau gögn sem til eru um uppsafnaða viðhaldsþörf sveitarfélagavega og áformum um úthlutun fjármagns til viðhalds á tímabilinu 2020–2030 er líklegt að eingöngu verði litlum hluta af uppsafnaðri viðhaldsþörf mætt. Í ljósi þessa eru framtíðarhorfur sveitarfélagavega metnar stöðugar, þ.e. þessir innviðir verða áfram í slæmu ásigkomulagi.

Skýrsluna Innviðir á Íslandi 2021 - ástand og framtíðarhorfur má nálgast hér.