Stöðugleikabúnað í alla nýja bíla strax

The image “http://www.fib.is/myndir/Mosley.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Max Mosley, forseti FIA
Á málþingi FIA í tilefni af tíu ára afmæli EuroNCAP í Brussel í vikunni kom fram í máli Max Mosley forseta FIA að ESC/ESP stöðugleikabúnaður er nánast alltaf staðalbúnaður í lúxusbílum, þeim fólksbílum sem best eru úr garði gerðir að öðru leyti tmeð tilliti til örryggis þeirra sem í þeim ferðast. Hann sagði það áhyggjuefni að á hinum enda skalans – í flokki smábíla og fjölskyldubíla af minni millistærð væri það undantekning að hinn mikilvægi öryggisbúnaður sem stöðugleikakerfi er, heyrði til staðalbúnaðar. Á síðasta ári  hefði stöðugleikakerfi verið staðalbúnaður í einungis átta prósentum nýrra smábíla og minni meðalstórra bíla sem nýskráðir voru í Evrópu. 92% hefðu verið án ESP. Í smábílaflokknum hefðu einungis 4% bílanna verið með stöðugleikakerfi sem staðalbúnað.
Mjög svipað væri ástandið í Bandaríkjunum. Árið 2003 hefðu einungis 7,4% fólksbíla verið búnir stöðugleikakerfi. Það ár fórust 15,621  manneskjur í eins bíls umferðarslysum. „Ímyndum okkur að hefðu allir bílarnir sem þetta fók var í þegar það lét líf sitt verið með stöðugleikabúnaði, þá væru að minnsta kosti 5.500 enn á lífi. Það hefði mátt minnka þennan hryllilega fórnarkostnað um minnst 35%  með stöðugleikabúnaði í bílunum. Af þessum ástæðum verðum við að þrýsta fast á með það að stöðugleikabúnaður verði ófrávíkjanlega í öllum nýjum bílum í Evrópu héðan í frá. Ef við þrýstum ekki á bílgreinina og bílamarkaðinn með að innleiða stöðugleikakerfi í alla fólksbíla þá mun það trúlegast taka tvo áratugi, eða álíka langan tíma og það tók að innleiða læsivarða ABS hemla í alla fólksbíla og það er of mikið af því góða. ESP/ESC stöðugleikakerfi er sú tækni sem best getur ein og sér stuðlað að því að markmið Evrópusambandsins náist um það að fækka dauðaslysum í umferðinni um 50% fyrir árið 2010,“ sagði Max Mosley.
Sl. sumar sendi EuroNCAP frá sér skorinorð tilmæli til evrópskra neytenda um að þeir keyptu ekki nýjan bíl nema að í honum væri stöðugleikabúnaður. Sænska vegamálastofnunin sendi frá sér svipuð tilmæli til sænsks almennings og sagði Max Mosley hvorttveggja lofsvert. „En fleira þarf að koma til svo almenningur geri sér fulla grein fyrir því hverskonar lífsspursmál er hér á ferðinni. Ég vil því leyfa mér að leggja til að Evrópusambandið og við vinnum samkvæmt áætlun í fimm liðum til að hraða þessari þróun sem mest. Þessi yrðu meginatriði áætlunarinnar:“

1. skref (2006) – EuroNCAP þrói sérstakt stöðugleikapróf fyrir bifreiðar í því skyni að sannreyna virkni stöðugleikabúnaðar í bílum. Slík vinna er þegar í gangi hjá bandarísku umferðaröryggisstofnuninni NHTSA. Skynsamlegt er að koma á samstarfi milli NHTSA annarsvegar og EuroNCAP og  Evrópuráðsins um þetta starf.
• 2. skref (2006-7) –EuroNCAP ætti að bæta við sjöttu stjörnunni í einkunnagjöf sína í árekstrar- og öryggisprófunum nýrra bíla. Sjötta stjarnan væri gefin þegar stöðugleikakerfið stenst kröfur um virkni og er staðalbúnaður í bílnum.
• 3. skref (2007) – Ríkin á Evrópska efnahagssvæðinu gefi hvert um sig 20 þúsund króna skatta/tollaafslátt af öllum nýjum fólksbílum með vélum undir 1,8 lítrum að rúmtaki, eða kosta  neytandann undir 1,5 milljónum króna , séu þeir búnir stöðugleikakerfi. Þessi skattaafsláttur skal gilda í þrjú ár í mesta lagi.
• 4. skref (2010) – Hafi stöðugleikabúnaður ekki náð því marki að vera í 95% nýrra bíla á Evrópska efnahagssvæðinu skal Evrópuráðið setja reglugerð sem byggð er á stöðugleikaprófunum EuroNCAP þannig að þeir bílar sem ekki standast stöðugleikapróf EuroNCAP fái ekki gerðarviðurkenningu í neinu landi á Evrópska efnahagssvæðinu.

Max Mosley sagði að þessi áætlun væri í samhljómi við umferðaröryggisáætlun Evrópuráðsins. Í áætlun ráðsins er lagt til að sérstakir skattaafslættir verði veittir vegna kaupa á bílum með stöðugleikabúnaði til að efla áhuga almennra neytenda á bílum með ESP/ESC kerfi. Í áætluninni er setning reglugerðar nefnd sem síðasta úrræði. Hann greindi frá því að umferðaröryggishópur Evrópuráðsins hefði áætlað að ef markmiðið um stöðugleikakerfi í 95% nýrra bíla næst, muni 1.400 færri farast árlega árið 2010 miðað við núverandi ástand.
„Ef við ætlum ekki að vinna eftir skýrri áætlun um að koma stöðugleikakerfum í alla bíla og sjá til þess að ESP/ESC búnaður í bílum verði regla en ekki undantekning, þá mun innleiðing búnaðarins ganga fram með sama hægaganginum og læsivarðir ABS hemlar gerðu í bílaflotanum. Ef það verður raunin þá ætlum við einfaldlega að sætta okkur við fjóldi fólks deyi ótímabærum dauða á vegunum, enda þótt við vitum að koma megi í veg  fyrir það.  Ég trúi því ekki. Ég er sannfærður um að við munum ná markmiðum okkar með stjörnugjöf EuroNCAP og skattaafsláttum yfirvalda í ríkjum Evrópu,“ sagði Max Mosley forseti FIA, heimssamtaka bifreiðaeigendafélaga.