Stöðuskilti fatlaðra gildir nú erlendis

Samræmdar reglur um notkun stöðuskilta fyrir fatlaða ökumenn gilda nú á öllu Evrópska efnahagssvæðinu að Íslandi meðtöldu. Stöðuskiltin líta nú eins út allsstaðar og merkja það sama. Þetta þýðir í stuttu máli það að fatlaðir einstaklingar á ferðalögum erlendis sem eru handhafar íslenskra stöðuskilta  hafa óskoraðan rétt til þess að nýta sér sérmerkt bílastæði fyrir fatlaða. Á sama hátt hafa fatlaðir erlendir ferðalangar þennan sama rétt á Íslandi. Þó skulu þeir forðast að leggja í stæði fyrir fatlaða sem eru sérmerkt með t.d. nafni eða bílnúmeri. Það þýðir að viðkomandi stæði er frátekið fyrir ákveðinn notanda.

Bílastæði sem merkt eru sérstaklega til afnota fyrir fatlaða, eru yfirleitt með hvítri táknmynd af hjólastóli á bláum grunni. Þau eru sérstaklega ætluð fyrir fatlaða sem jafnframt eru handhafar stöðuskiltis. Hinir fötluðu setja stöðuskilti sitt á áberandi stað í bílnum sem sannar að þeir megi leggja í umrætt stæði og aðrir eiga ekki að leggja þar.

Íslenskir handahafar stöðuskilta fyrir fatlaða geta nú hindrunarlaust notað stöðuskilti sín í flestum löndum hins evrópska efnahagssvæðis, það er að segja í ríkjum Evrópusambandsins og EFTA löndunum og reyndar ýmsum öðrum löndum öðrum víðs vegar um veröldina. Nánari upplýsingar er að finna á upplýsingavef FIA í Brüssel.  

Rétt er að lokum að benda á að sum lönd eins og t.d. Austurríki ætlast til að fatlaðir ferðalangar prenti út þennan miða og staðsetji hann í framrúðuna við hlið stöðuskiltisins. Til að forðast hugsanleg óþægindi sakar því efalaust ekki að hafa þennan miða tiltækan víðar.