Stofnandinn hættur og 75% starfsmanna reknir

Rafbílaframleiðandinn Fisker Automotive í Kaliforníu er nú við dauðans dyr. Stofnandinn, Daninn  Henrik Fisker hefur yfirgefið hið sökkvandi skip eftir miklar deilur við forstjórann Tony Posawatz og um helgina fengu þrír af hverjum fjórum starfsmönnum uppsagnarbréf.

Henrik Fisker var um skeið aðalhönnuður BMW en stofnaði Fisker Automotive árið 2007 til að láta draum sinn rætast um lúxus-rafbíl með innbyggðri rafstöð um borð. Ekki vantaði það að bíllinn, sem fékk nafnið Fisker Karma, væri glæsilegur og vel hannaður. Frægðarfólk og kvikmyndastjörnur  vildu ólmar eignast Fisker Karma og kaupendur fyrstu bílanna voru m.a. Leonardo di Caprio, Justin Bieber og Friðrik krónprins Danmerkur.

Fisker Automotive þarf þann 22. apríl nk. að greiða upp rúmlega 500 milljón dollara lán það sem bandaríska orkumálaráðuneytið lánaði fyrirtækinu árið 2009. Lánið var hluti áætlunar  Obama forseta um að örva framleiðslu mjög sparneytinna bíla. Lánið var greitt út í skömmtum og Fisker náði að fá útborgaðar 193 milljónir dollara en þá stöðvaði ráðuneytið frekari útgreiðslur þess vegna meintra vanefnda Fiskers.

Fisker Karma bílarnir voru byggðir hjá Valmet í Finnlandi þannig að reikna mátti með að allur frágangur væri í hæsta gæðaflokki. En svo virðist sem einhverjir hönnunargallar hafi verið í bílunum frá upphafi því að í júlí sl. ekki löngu eftir að almenn sala á bílunum hófst, þurfti að innkalla þá vegna brunahættu og um leið stöðvaðist framleiðslan.

Næsta áfallið kom svo þegar stormflóðin fyrr í vetur gengu yfir austurströnd Bandaríkjanna. Þegar fellibylurinn Sandy æddi yfir New York flæddi sjór yfir tugi Fisker Karma bíla þar sem þeir stóðu á hafnarsvæði borgarinnar. Þegar mesta flóðinu slotaði, kviknaði í flestum þeirra sem brunnu til kaldra kola. Þá kom næsta áfallið sem var það að fyrirtækið A123 Systems sem framleiddi rafhlöðurnar í bílana, varð gjaldþrota.  Svo um miðjan mars gekk Henrik Fisker út og nú síðast er 75 prósent starfsmanna sagt upp.  Samanlögð áhrif þessara dapurlegu frétta hafa orðið þau að eftirspurn eftir bílunum hefur nánast horfið.

Undanfarið hefur forstjórinn leitað dauðaleit að nýjum fjárfestum, m.a. í Kína, en án sýnilegs árangurs.