Stór innköllun hjá Hyundai víða um heim

Suður-Kóreanski bílaframleiðandinn Hyundai hefur gripið til þess ráðs að innkalla um 76 þúsund eintök Kona EV á síðustu vikum. Innköllunin er til komin vegna bruna sem upp hafa komið í 15 bifreiðum af þessari tegund í S-Kóreu, Kanada, Finnlandi og í Austurríki. Ljóst er að þetta ferli mun kosta Hyundai háar fjárhæðir en skipta þarf um rafhlöðu í bílunum.

Bílaframleiðandinn hefur komið þeim ábendingum til eigenda þessara bíla að hlaða ekki bílana meira en 90% áður en fullnaðar viðgerð hefur farið fram. Haft er eftir Hyundai-umboðinu á Íslandi í Fréttablaðinu að ekki séu komin formleg svör frá Hyundai varðandi innkallanir hér á landi. Umboðið mun bregðast við jafnskjótt og leiðbeiningar berast frá framleiðandanum. Ítrekað er að engin vandræði hafa komið upp í rafhlöðum Hyundai Kona sem BL hefur flutt til landsins.

Fram kemur að Hyundai ætlar að innkalla Kona EV sem smíðaðir voru milli nóvember 2017 og mars 2020 ásamt nokkrum Ionic-bílum frá sama tímabili. Innköllunin verður sú dýrasta sem framkvæmd hefur verið á rafbíl og mun kosta framleiðandann 115 milljarða króna.