Stórendurbætt Hvalfjarðargöng

Að undanförnu hefur öryggi vegfarenda sem um Hvalfjarðargöngin fara, verið stórlega bætt, sem er mikið fagnaðarefni og lofsvert. Eins og margir muna fengu öryggisþættir ganganna göngin slæman dóm í úttekt EuroTAP árið 2010. Í þeirri úttekt voru 26 göng í Evrópu skoðuð og metin. 22 stóðust öryggiskröfur en fern göng ekki. Hvalfjarðargöngin voru í síðarnefnda flokknum og reyndust síst þeirra sem skoðuð voru. Úttektin var kynnt samgöngunefnd Evrópuþingsins í Brussel að viðstöddum upplýsingafulltrúa Umferðarstofu og tveimur starfsmönnum FÍB. Á þeim fundi líkti framkvæmdastjóri EuroTAP, Hvalfjarðargöngunum við svarthol.

Fjallað er um endurbæturnar í Hvalfjarðargöngunum í fréttaskýringu í Morgunblaðinu mánudaginn 9. janúar. Skilja má þar að fyrrnefnd öryggiskönnun á 26 evrópskum jarðgöngum hafi verið gerð af ADAC, sem eru samtök þýskra bifreiðaeigenda og systursamtök FÍB. Og hversvegna skyldi nú ADAC hafa verið  að skoða öryggismál jarðganga norður á Íslandi?

Þannig liggur í málinu að EuroTAP er stofnun í eigu evrópsku bifreiðaeigendafélaganna innan FiA heimssamtakanna. EuroTAP er sérhæfð í því að skoða og meta öryggi vegfarenda í veggöngum. Aðrar samskonar stofnanir í eigu bifreiðaklúbbanna eru EuroRAP sem metur öryggi vega, EuroNCAP sem metur öryggi bifreiða í slysum og árekstrum og EuroTEST sem prófar fjölmargt annað sem viðkemur umferð, t.d. barnaöryggisbúnað og margt fleira. Svo vill til að ADAC lagði til þessarar jarðgangaskoðunar sérhæfða verkfræðiþekkingu, en það var að beiðni FÍB að Hvalfjarðargöngin, umferðarþyngstu jarðgöng á Íslandi, voru tekin með í fyrrnefnda rannsókn EuroTAP.

Meðal þess sem gert hefur verið í göngunum eftir að niðurstaða EuroTAP lá fyrir 2010 er að nú er komið upp sívöktunarkerfi í göngunum sem m.a. styðst við um 80 myndavélar sem sjá nánast hverja hreyfingu í göngunum, lýsingin er mun betri en áður, neyðarsímar eru með 125 metra millibili, skápar með slökkvitækjum hafa verið settir upp og margt fleira sem

Fullyrða má að þeim fjármunum sem hefur verið varið til þessara endurbóta er vel varið. Það er nefnilega alltaf skynsamlegra að byrgja brunninn áður en barnið fellur ofan í hann. Öruggt má telja að Hvalfjarðargöngin eru nú lang öruggustu veggöng á Íslandi. Það verður því forvitnilegt að sjá hvernig önnur göngu koma út í samskonar skoðun og EuroTAP gerði á Hvalfjarðargöngum en talsverður áhugi er á slíku. Engin ákvörðun um nýja EuroTAP rannsókn á Íslandi hefur þó verið tekin ennþá.