Stórhækkaðar álögur á bíla og bílaeldsneyti

http://www.fib.is/myndir/FIB-logo.jpg
Allt útlit er fyrir að stjórnarfrumvarp um verulega hækkun álaga á bifreiðaeigendur nái í gegn á Alþingi í kvöld. Samkvæmt frumvarpinu stendur til að hækka bifreiðagjald á bíla um 10 prósent. Þá hækkar jafnframt bensíngjald, sem er föst krónutala á hvern lítra. Hækkunin á bensíngjaldinu nemur 10 krónum á lítrann. Ofan á þennan tíkall sem bætist við innkaupsverð og vörugjald af bensíninu leggst síðan 24,5 prósenta virðisaukaskattur. Olíugjald, sem eins og bensíngjaldið er föst krónutala, hækkar minna, eða um 5 krónur á lítrann. Það er gert vegna þess að dísilbílar eru taldir (með réttu eða röngu) umhverfismildari en bensínbílar.

FÍB er eindregið mótfallið því að lagðar verði meiri álögur á almenning með því að þyngja enn einu sinni álögur á bíla og bílanotkun. Sú aðferð stjórnvalda að leggjast í skattavíking gegn bifreiðaeign og –notkun landsmanna þegar rétta þarf hag ríkissjóðs er ekki ný saga. Bíllinn er það heimilistæki fjölskyldna í dreifbýlu landi sem þær geta einna síst verið án. Hækkun eldsneytis kemur verst niður á þeim tkjulægstu og íbúum á landsbyggðinni sem þurfa að fara langan veg eftir þjónustu.  Bíllinn gerir fólki auðveldara að sækja vinnu og afla tekna. Í því efnahags- og atvinnuástandi sem nú ríkir hlýtur það að teljast afar ámælisvert að vega með þessum hætti, enn einusinni, að atvinnumöguleikum heimilanna.

Þær hækkanir sem að öllum líkindum munu bresta á í fyrramálið hafa ennfremur áhrif á framfærsluvísitöluna. Hún mun hækka og þar með munu skuldir heimilanna, þar með taldar húsnæðisskuldir hækka, og þar með eykst enn fjárhagsvandi fjölmargra sem óneitanlega telst ærinn fyrir. Enn skal höggvið í þennan knérunn.

Stjórnmálaflokkarnir á alþingi hafa lengstum haft áhyggjur af háum flutningskostnaði sem hverskonar atvinnustarfsemi á landsbyggðinni þarf að standa undir. Samkvæmt lagafrumvarpinu um auknar álögur á almenna bifreiðaeigendur á greinilega að freista þess að draga úr óæskilegum áhrifum hinna nýju laga með því að lækka þungaskatt af stórum flutningabílum sem innheimtur er af notkun þeirra sem kílómetragjald á móti fyrirhugaðri hækkun á olíugjald af dísilolíunni.

Í því sambandi verður ekki hjá því komist að minna á þá staðreynd að stærstu flutningabílarnir slíta vegum mörgþúsundfalt á við venjulega fólksbíla. Kílómetragjald á þessa bíla er því nokkurskonar greiðsla upp í hið mikla slit sem þessi farartæki valda. Sú aðgerð að lækka þetta gjald á þau farartæki sem mest slíta vegunum er því ekkert annað en aukin mismunun milli þungaflutninganna á vegunum og almennrar umferðar. Kostnaði við viðhald vegakerfisins skal velt með auknum þunga á herðar almennra bifreiðaeigenda, sem eru almenningur – fjölskyldurnar í landinu.

Að undanförnu hefur verið nokkuð rætt um aukin sóknarfæri ferðaþjónustunnar sem skapast hafa vegna lækkandi gengis krónunnar. Með því að hækka álögur á bifreiðar og bifreiðanotkun er augljóslega líka verið að draga úr þessum sóknarfærum ferðaþjónustunnar.

FÍB hefur ekki fengið þetta umrædda stjórnarfumvarp til skoðunar og umsagnar, enda er ætlunin greinilega sú að keyra það í gegn um þingið í kvöld. Félagið hlýtur þó að vara stjórnvöld við margþættum óæskilegum en því miður mjög líklegum afleiðingum þess, sem hér hafa verið raktar.