Sumartónleikar Audi 2008

http://www.fib.is/myndir/Florez.jpg
Juan Diego Florez.

Audi bílafyrirtækið í Þýskalandi stendur á hverju sumri fyrir ágætum tónlistarviðburðum í heimabæ sínum, Ingolstadt og víðar. Í sumar verða yfir tuttugu tónlistarviðburðir á tímabilinu 3. Júlí til 2. ágúst. Hápunktur Sumartónleika Audi 2008 verða tónleikar tenórsöngvarans Juan Diego Florez þann 24. júlí í hátíðarsal leikhússins í Ingolstadt (Festsaal Ingolstadt).

Listafólkið sem fram kemur á tónleikum Audi í sumar eru bæði alþjóðlegar tónlistarstjörnur og ungt og upprennandi listafólk. Segja má að tenórsöngvarvinn Juan Diego Florez sé hvorttveggja. Hann er fæddur í Perú 1973 og er talinn einn fremsti tenórsöngvari og Rossini-túlkandi heims um þessar mundir. Söngstíll hans er sagður einkennast af djúpri túlkun og rödd hans einstaklega fögur og sterk. Juan Diego Florez hefur heillað mjög hlustendur og áhorfendur sína sem og gagnrýnendur og hann kemur reglulega fram í öllum helstu óperuhúsum heims. Á Audi-tónleikunum í Ingolstadt syngur hann við undirleik Georgísku kammerhljómsveitarinnar í Ingolstadt undir stjórn Christophers Franklin.

Af öðrum tónlistarviðburðum í sumar má svo nefna tónleika Sinfóniuhljómsveitar æskunnar í San Fransisco (San Francisco Symphony Youth Orchestra) þann 6. júli í Ingolstadt. Hljómsveitarmeðlimir eru á aldrinum 12-20 ára og hljómsveitin er talin ein sú besta sinnar tegundar í Bandaríkjunum. Á tónleikunum í Ingolstadt í sumar flytur hljómsveitin fiðlukonsert finnska tónskáldsins Jean Sibelius. Einleikari verður Julian Rachlin. Einnig mun hún flytja 9. Sinfóníu Antonín Dvořáks, öðru nafni Sinfónía frá nýja heiminum. Um ofannefnda tónleika og aðra viðburði í tónleikaröð Audi 2008 er hægt að lesa meira á sérstakri heimasíðu sumartónleikanna. Þar eru einnig upplýsingar um miðapantanir o.fl.