Sumum fannst í lagi að brjóta lög

Hans Dieter Pötsch (t.v. á mynd) stjórnarformaður Volkswagen hét því að blaðamannafundi í Wolfsburg í Þýskalandi 10. desember að allt yrði gert til að draga finna þá menn innan samsteypunnar sem stóðu fyrir því að setja búnað í dísilbíla sem fegrar raunverulegar mengunartölur þegar bílarnir eru mengunarmældir. Hann játaði að í sumum deildum VW hefði ríkt sá hugsunarháttur að í lagi væri að brjóta og beygja lög og reglur. Blaðamannafundinum var sjónvarpað beint á Internetinu. Þar sátu fyrir svörum stjórnarformaðurinn ofannefndi og hinn nýi forstjóri Volkswagen;  Matthias Müller (t.h. á mynd).

Þeir sögðu að nú væri það forgangsmál að endurheimta traust almennings á VW sem glatast hefði eftir að upp komst um pústsvindlmálið. Framvegis skyldi unnið fyrir opnum tjöldum og allt sem fyndist um aðdraganda svindlsins og verklag þeirra sem að því stóðu yrði lagt fram, engu yrði „sópað undir teppið.“

Matthias Müller sagði að unnið hefði verið hörðum höndum að því undanfarið að lagfæra uppbyggingu stjórnkerfis VW, fækka yfirstjórnendum, stytta boðleiðir og auka jafnframt valddreifingu og lýðræði og dreifa ábyrgð. Of mikil miðstýring og „jámannamenning“ hefði átt sinn þátt í því hvernig fór. Bæði sjórnarformaðurinn og forstjórinn voru ítrekað spurðir um hverjir hefðu fyrirskipað og látið framkvæma pústsvindlið en þeir vildu ekki nefna neinn né heldur í hvaða deildum viðkomandi hefðu starfað eða störfuðu. Sögðu einungis að níu háttsettir starfsmenn hefðu verið reknir.