Suzuki heimtar skilnað

„Hjónabandserjur“ Suzuki og Volkswagen hafa nú náð nýjum hæðum með bréfi sem stjórn Suzuki sendi stjórn Volkswagen sl. föstudag. Í bréfinu krefst Suzukistjórnin þess að Volkswagen selji henni til baka 19,9 prósenta hlut VW í Suzuki þegar í stað og samstarfi fyrirtækjanna ljúki þar með. Volkswagenstjórnin neitar.

Nú eru tvö ár síðan Suzuki og VW hófu samstarf með því að Volkswagen keypti fyrrnefndan 19,9 prósenta hlut í Suzuki af stjórn Suzuki. Með svipuðu móti eignaðist Suzuki 1,49 prósenta hlut í VW samsteypunni sem er margfalt stærri en Suzuki og nálægt því að vera stærsta bílafyrirtæki veraldar. Hjá Volkswagen bjuggust menn við því að Suzuki sæi sér hag í því að fá aðgang að dísilvélium og dísilvélatækni VW. Sjálfum töldu þeir það sér í hag að fá aðgang að smábílatækni Suzuki og aðgang að markaðssvæðum þar sem Suzuki stendur sterkt, eins og t.d. Indlandi. Það kom VW-mönnum síðan mjög óþægilega á óvart er Suzuki samdi um kaup á dísilvélum við Fiat. Ekkert hefur því komið útúr þessum gagnkvæmu hlutabréfakaupum fyrirtækjanna hvort í öðru nema þá helst ergelsi og pirra.

Í bréfinu á föstudag sakar Suzuki Volkswagen um að hafa ekki staðið við fjölda atriða í samstarfssamningi fyrirtækjanna. Stjórn VW svaraði strax á föstudag með fréttatilkynningu. Í hennir eru ásakanir Suzuki sagðar tilhæfulausar og að ranglega væri farið með staðreyndir. „Við erum mjög vonsviknir yfir því að Suzuki skuli hafa tekið þetta skref. Það er enginn lagagrundvöllur undir kröfu þeirra um að við skilum hlutabréfunum. Volkswagen mun því eiga þau áfram,“ segir í tilkynningunni.

Osamu Suzuki stjórnarformaður Suzuki segir við fjölmiðla að hann vilji gefa stjórn VW smá umhugsunartíma en síðan muni verða leitað til alþjóðlegs skilnaðardómstóls, sjái VW sig ekki um hönd.