Svart svínarí olíufélaganna

Lítri af bensíni er nú 50 krónum dýrari en í byrjun ársins, þrátt fyrir að heimsmarkaðsverð á olíu sé í þessari viku á svipuðu róli og þá. Heimsmarkaðsverðið er uppreiknað með gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal. Í janúar var fullt útsöluverð hjá N1 um 280 krónur en nú er það 333 krónur.

Íslensku olíufélögin hækkuðu reglulega útsöluverð á bensíni og dísilolíu þegar heimsmarkaðsverð hækkaði eftir innrás Rússa í Úkraínu. Í sumar fór heimsmarkaðsverð hratt lækkandi, en lítraverð hér á landi fylgdi rólega eftir og hefur nánast staðið í stað frá því í byrjun september. Síðan í sumar hefur lítraverð á bensíni hjá Q8 í Danmörku aftur á móti lækkað um 60 krónur, úr 330 krónum í 270 og þannig fylgt lækkun heimsmarkaðsverðs í einu og öllu. Skattar á bensín í Danmörku eru heldur hærri í krónum á lítra en hér á landi.

Ekki er hægt að kalla þessa verðlagningu olíufélaganna annað en hreinræktað okur. Ljóst er að á milli þeirra ríkir þegjandi samráð um að hafa álagningu sem hæsta. Heimsmarkaðsverði er fylgt hratt upp en löturhægt niður. Að teknu tilliti til gengis dollara, þá er heimsmarkaðsverð á hvern bensínlítra svipað síðustu daga og það var i janúar og febrúar, eða um 95 krónur. Þá gat N1 selt bensínlítrann á 280 krónur, en heimtar nú 333 krónur.

Uppskrúfuð álagningin nær einnig til afsláttarstöðvanna. Miðað við álagningu olíufélaganna í janúar síðastliðnum ætti lítraverðið á afsláttarstöðvunum að vera í kringum 260 krónur. En þar kostar bensínlítrinn 306 krónur. Meira að segja Costco hefur stokkið á vagninn og hækkað álagningu. Bensínverð þar er aðeins 2,5% lægra en hjá keppinautum. Ef Costco héldi sig við álagningarstefnu fyrirtækisins í öðrum löndum gæti bensínið kostað tugum króna minna hjá Costco Urriðaholti en hinum félögunum.

Eldsneyti á ökutæki vegur mjög þungt í vísitölu neysluverðs og óeðlileg álagning kyndir verðbólgubálið. Hvað eru stjórnvöld að gera til að sporna við þessari ofurálagningu? Varla eru ábyrgðarmenn ríkissjóðs bara ánægðir með stórauknar virðisaukaskattstekjur af eldsneytisnotkun landsmanna og horfa fram hjá neikvæðum verðlagsáhrifum.

Okurálagning olíufélaganna skýtur skökku við á sama tíma og önnur fyrirtæki keppast við að bjóða neytendum lækkað verð, tilboð og afslætti í undirbúningi jólanna. Hið svarta svínarí olíufélaganna hefur öfug formerki við svartan föstudag.

Bensínlínurit nóvember 2022

Myndin sýnir þróun bensínverðs á Íslandi og í Danmörku og þróun Brent hráolíuverðs frá 1. maí til 24. nóvember 2022. Vinstri ás sýnir verð í Banaríkjadölum (USD) á hvert tonn af hráolíu og byrjar í 80 USD. Hægri ás sýnir verð á hvern lítra af bensíni í íslenskum krónum (ISK) og byrjar í 265 krónum.