Svarti liturinn vinnur á

Silfurgrái liturinn á bílum hefur verið sá vinsælasti í heiminum um talsvert langt árabil. En nú sækir svartur litur mjög á og í Evrópu er hann orðinn vinsælli en silfurgráminn og sækir einnig á í öðrum heimshornum.   

 Silfurgrái liturinn var sá litur sem flestir kaupendur nýrra bíla í heiminum völdu á árunum 2000 til 2007. Árið 2008 skaust hvít-sanseraður litur upp fyrir þann silfurgráa. Sá silfurgrái náði svo aftur fyrsta sætinu en nú lítur út fyrir að hann verði að hörfa á nýju ári fyrir svarta litnum.

Svarti liturinn hefur sótt mjög á þann gráa á árinu sem nú er að líða í aldanna skaut. 24 prósent þeirra nýju bíla sem seldust í heiminum á árinu voru svartir á móti 22 prósentum silfurgrárra. Hvítir og gráir bílar deildu svo með sér þriðja sætinu með 16 prósent bíla hvor litur.

Það er málningar- og efnaframleiðslufyrirtækið Dupont sem gerir árlega samantekt á litum nýrra bíla. Svarti liturinn hefur verið mjög vinsæll litur á bílum í Bandaríkjunum og telst þar vera tákn virðuleika og því rétti liturinn á dýrum lúxusbílum. Í Evrópu hefur hvítur litur verið algengari á slíkum bílum.

En það eru alltaf til bílakaupendur sem velja bíla í sérstökum litum, gjarnan sterkum, áberandi eða glaðlegum. Ef þú ert einn þeirra, ágæti lesandi, þá skaltu velja gylltan eða sterk-gulan lit. Þeir eru nefnilega lang fæstir sem velja þessa liti á nýju bílana sína eða eitt prósent hvorn lit.

Svo virðist sem smekkur bílakaupenda allsstaðar í heiminum sé mjög svipaður hvað varðar bílaliti. Eina marktæka undantekningin virðist vera Rússland því furðu margir þar, eða 10 prósent velja nýjan bíl grænan að lit, eða mun fleiri en í öðrum löndum.