Svíar grisja hámarkshraðamörkin

Sænska umferðarráðið vill taka til í þeim hámarkshraðamörkum sem gilda í landinu og hefur lagt fram tillögu að lagaframvarpi fyrir ríkisstjórnina sem hún að öllum líkindum mun samþykkja fljótlega. Í þéttbýli vill ráðið að lægsti hámarkshraði verði áfram 30 en 50 lækki í 40, 70 lækki í 60 og 90 lækki í 80. Úti á vegum verða mörkin 100, 110 og 120 eftir aðstæðum á hverjum stað. Þetta þýðir að meðalhraði í þéttbýli lækkar yfirleitt frá því sem nú gildir, en getur reyndar hækkað sumsstaðar, t.d. í 100 þar sem hann var áður 90 – ef aðstæður leyfa.

Helstu kostir sem menn sjá við þessar breytingar er að umferðargnýr lækkar og reiknað er með að 30 mannslíf sparist á ári í sænsku umferðinni. Lena Erixon framkvæmdastjóri ráðsins segir við tímaritið Vi bilägare að með því að fækka hámarkshraðamörkunum frá því sem þau eru nú, fái fólk skýrari yfirsýn yfir þær reglur sem gilda í umferðinni. Það geti allt eins leitt til þess að sænsk markmið um fækkun umferðarslysa náist fyrr og auðveldlegar en áætlanir segja.

Þessi nýju hámarkshraðamörk (40, 60, 80, 100 og 120 km/klst.) hafa reyndar verið innleidd á nokkrum völdum stöðum í tilraunaskyni. Umferðarráðið telur reynsluna sýna að hyggilegt sé að 40 km á klst í þéttbýli leysi hin núverandi almennu mörk – 50 km á klst. - af hólmi og þau verði hin almenna regla og út frá henni gengið framvegis þegar ný umferðarmannvirki verða hönnuð.

Ætlunin er að nýju hámarkshraðamörkin gangi í gildi í áföngum á nokkrum árum. Þannig verði öll 50 km skilti og sömuleiðis 70 og 90 km skilti horfin eftir 12 ár.

– Ef umskiptin eru þrauthugsuð, eiga sér góðan aðdraganda og ökumenn sjá skynsemina í því að hámarkshraðamörk séu í beinu samhengi við ástand og aðstæður á viðkomandi vegarköflum, þá verða ökumenn fúsari til að fara eftir þeim, en einmitt það er mjög mikilvægt umferðaröryggismál., segir framkvæmdastjórinn ennfremur.