Svíar herða regluverkið

Á næsta vetri koma til framkvæmda í Svíþjóð hertar reglur um vetrardekk og notkun þeirra. Þá verða M+S dekk (heilsársdekk) að vera með Alpa-snjókornamerkingu til að teljast hæf fyrir vetrarakstur. Í frétt í sænskum fjölmiðlum kemur fram að samgönguráðuneytið þar í landi leggi fram breytingu á skilgreiningunni á vetrardekkjum. Eldri skilgreingin, sú með M+S markinu, þykir ekki lengur duga heldur verða vetrardekkin nú að vera merkt með „Alpine peak/snowflake“, eða svokölluðu 3 PMSFmerkið. Í raun standast mörg  M+S merki ekki kröfur í vetrarakstri.

Merkingin „Alpine peak/snowflake“ segir í raun að dekkin hafa ákveðna eiginleika og standast kröfur í vetrarakstri. Þau búa yfir meira öryggi en dekk með M+S merkingu. Einungis er verið að skerpa á málum og merkja öll þessi dekk með þessu, þar á meðal vörubíladekk sem gerð eru fyrir vetrarakstur. Sérfræðingar á þessu sviði eru á einu máli um að þetta sé góð þróun. Flest öll vetrardekk sem eru seld hér á landi hafa 3 PMSF merkið.

Markmiðið með þessari breytingu er að auka öryggi í kringumstæðum sem skapast í akstri að vetrarlagi. Þetta hefur það í för með sér að ökumenn sem aka á M+S merktum dekkjum allt árið um kring verða að fara yfir á ný vetrardekk. Bráðabirgðareglur gilda til 31. desember 2024.

Flestir ökumenn kannast við aðstæður sem skyndilega myndast á íslenskum vegum. Nýlegt dæmi um það má nefna að fyrr í vetur lenti fjórhjóladrifinn bíll á góðum heilársdekkjum í mikilli ísingu og ólýsanlegri hálku á Öxnadalsheiðinni. Alauður og þurr vegur virtist blasa við augum en bíllinn lenti á vegriði og kastaðist þaðan út af veginum. Ökumaður og farþegar sluppu við teljandi meiðsli. Líklega má telja að nagladekk hefðu hjálpað til við þessar aðstæður.