Svíar vilja gefa 736 þús. IKR með hverjum rafbíl frá og með 2012

Ef lagafrumvarp sænskra umferðaryfirvalda nær fram að ganga þá munu bílar sem gefa frá sér minna en 50 grömm af koldíoxíði á hvern ekinn kílómetra verða 40 þús. sænskum krónum ódýrari frá og með 1. janúar 2012. Það jafngildir 736 þúsundum ísl. krónum á hvern bíl. Þeir bílar sem falla undir þessa skilgreiningu eru fyrst og fremst rafbílar og tengiltvinnbílar.

Frumvarpið þýðir það í raun að um hreina meðgjöf sænska ríkissjóðsins verður að ræða, því að opinber gjöld af nýjum bílum í Svíþjóð eru nánast engin önnur en 25% virðisaukaskattur. Í dag kostar rafbíllinn Nissan Leaf  5.152 þús. ísl. kr. út úr búð í Svíþjóð. Eftir að nýju lögin taka gildi mun hann kosta 4.416 þús ísl kr. Með ríkisafslættinum mun Chevrolet Volt kosta 7.360 þús IKR og Peugeot Ion (Mitsubishi iMiev) um 5,9 millj. IKR. 

735 þúsund króna  afslátturinn á einungis að ná til einstaklinga en ekki fyrirtækja og félagasamtaka samkvæmt lagafrumvarpinu. Sænska rafbílafélagið Elbil Sverige gagnrýnir það og telur það ekki sé síður mikilvægt fyrir græna ímynd Svía að fyrirtæki fái líka afsláttinn. Systurfélag fÍB í Svíþjóð; Motormännens Riksförbund gagnrýnir lagafrumvarpið líka og segir það varla pappírsins virði. Gert sé ráð fyrir því að Svíar kaupi ca. 9 þúsund rafbíla á móti tæplega 300 þúsund venjulegum bensín- og dísilbílum árlega. Í lagafrumvarpinu sem hér um ræðir er gert ráð fyrir endurgreiðslu vegna ca. fimm þúsund raf- og tengiltvinnbílum. Motormännens Riksförbund segir að svona lágt hlutfall rafbílanna skipti í raun litlu máli. Sá hópur sem getur gert sér rafbíl að góðu sé mjög afmarkaður og endurgreiðslulögin því mest til að sýnast.

En þegar þessi lög taka gildi eiga eldri lög um sérstakt ríkisframlag til kaupenda umhverfismildra bíla að falla úr gildi. Í þeim miðaðist skilgreiningin á umhverfismildum bíl við 130 grömm CO2 á ekinn kílómetra. Nýja skilgreiningin, 50 grömm, nær í raunveruleikanum aðeins til rafbíla og tengiltvinnbíla allt upp í meðalstærð. Slíkir bílar eru ennþá mjög lítið hlutfall nýjustu bílanna þannig að í raun sparar sænska ríkið umtalsvert á breytingunni þótt svo að ríkisframlagið sjálft af hverjum bíl sé mun hærra en það sem hingað til hefur verið.