Svifryk mælist enn hátt – von á veðrabreytingum í vikunni

Veðurfarið á höfuðborgarsvæðinu síðustu vikurnar hefur ýtt undir aukna mengun. Stillt veður hefur verið ríkjandi svo dögum skiptir og vart hefur orðið við aukin styrk svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs er hátt. Há gildi koma fram í mælingum á styrk brennisteinsvetnis.

Í gærmorgun var hálftímagildi svifryks við Grensásveg 173 míkrógrömm á rúmmetra. Í mælistöð við Hringbraut var hálftímagildið á sama tíma 242 míkrógrömm á rúmmetra og við Eiríksgötu 64 míkrógrömm á rúmmetra.

Köfnunarefnisdíoxíð hefur einnig mælst nokkuð hátt í sömu stöðvum. Nú er hægur vindur, götur þurrar og litlar líkur á úrkomu fyrr en miðvikudag. Þetta er í sjötta skiptið á þessu ári sem svifryk mælist of hátt í borginni en í fyrra kom það fyrir 17 sinnum.

Göturnar mjög skítugar eftir veturinn

Ástæður geta verið af ýmsu tagi þegar svona ástand myndast og má í því sambandi benda á að götur eru skítugar eftir veturinn eins og reyndin er núna. Eins og bent hefur verið á í umfjöllun um þetta mál á vefsíðu FÍB hefur verið ráðist í að rykbinda helstu umferðaræðar en betur má ef duga skal. Farið er í þessar aðgerðir að ráðum viðbragðsteymis um loftgæði en það er samstarfsvettvangur Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar.

Í öllu falli hefði besti kosturinn verið sá að skola helstu umferðaræðar en það hefur ekki tekist sem skildi vegna óhagstæðara hitaskilyrða. Aðilar sem annast hreinsun gatna hafa bent á að ekki megi vera frost þegar þær aðgerðir eru í gangi. Ef hlýrra hefði verið í veðri hefði verið hægt að skola göturnar og hefði þá mengunin og svifrykið að öllum líkindum minnkað til muna.

Megináhersla í hreinsun gatna er á vorin og á haustin

Í þessari umræðu hafa margir bent á að grípa hefði þurfti fyrr til aðgerða til sporna við auknum styrk svifryks. Aðilar, sem koma að hreinsun gatna í borginni, segja að tækifæri hefði gefist til að þvo götur en því miður hefði ekki verið ráðist í þær aðgerðir. Megináherslan í hreinsun gatna og gönguleiða er á vorin og fram á sumar. Einnig er farin yfirferð að hausti til að viðhalda góðu ástandi og þá er sérstök áætlun um hreinsun miðborgarinnar. Í vissum tilfellum þarf að bregða út af vananum og það hefði verið brýn ástæða þess eins og ástandið er búið að vera síðustu vikurnar.

Árið 2013 vann EFLA verkfræðistofa rannsóknarverkefnið „Samsetning svifryks í Reykjavík“ Svifrykssýnum var safnað á glertrefjasíur við loftgæðastöðina á Grensásvegi. Efnagreiningar og úrvinnsla var svo sambærileg rannsókninni sem gerð var árið 2003 [3].  Niðurstöður þessarar rannsóknar sýndu nokkuð breytta samsetningu miðað við rannsóknin frá 2003 eða: malbik 17%, jarðvegur 18%, sót 30%, salt 3%, bremsuborðar um 14% og aska 18%. Töluvert magn af ösku mældist í þessari rannsókn en hún var ekki til staðar í fyrri rannsókninni.

Margir þættir valda því að styrkur svifryks hækkar

Ýmsir þættir eru þess valdandi að styrkur svifryks hækkar. Í því sambandi er hægt að benda á hálkuvarnir sem þyrla upp setlögum með tímanum og ennfremur berst mikið ryk frá óvörðum byggingarsvæðum , sem eru víða á höfuðborgarsvæðinu. Umferð þungaflutningabíla, sem bera aðföng að og frá byggingasvæðum innan um þétta byggð, hefur ennfremur aukist til muna. Aukin straumur ferðamanna til landsins eykur að sjálfsögðu álagið á gatnakerfið og á sinn þátt í auknu sliti á malbiki. Fleira eflaust kemur til en allt þetta ýtir undir aukna svifryksmengun.

Í fjölmiðlum í dag er haft eftir umhverfisráðherra að til að eðlilegt sé að horfa til úrræða eins og að takmarka umferð. Loka megi einnig götum ef svifryksmengun mælist yfir mörkum.

Þrátt fyrir að bílum hafi fjölgað mikið á Íslandi undanfarin ár og umferð þeirra aukist, hafi útblástursmengun frá bílum ekki aukist heldur þvert á móti minnkað. Umhverfisvænum bílum fjölgar jafnt og þétt á götunum og það hafa verið stórstígar framfarir í hönnun, smíði bíla og bílvéla á undanförnum árum.

Lítið er vitað um áhrif loftmengunar á heilsu almennings á höfuðborgarsvæðinu en rannsóknir hafa leitt í ljós marktæk tengsl eru á milli notkunar á astmalyfjum og hás styrks á brennisteinsvetni og svifryki (PM10).

Loftgæði í Reykjavík eru undir venjulegum kringumstæðum góð en köfnunarefnisdíoxíð (NO2) og svifryk (PM10) eru þau efni sem líklegust eru til að fara yfir heilsuverndarmörk. Í Reykjavík er starfandi viðbragðsteymi, samkvæmt viðbragðsáætlun fyrir loftgæði sem meðal annars sendir út tilkynningar ef loftgæði eru líkleg til að fara yfir heilsuverndarmörk og ákveður til hvaða mótvægisaðgerða er gripið til.

Árið 2006 hófust mælingar á brennisteinsvetni (H2S) við Grensásveg og í júní 2010 var gefin út íslensk reglugerð með heilsuverndarmörkum fyrir brennisteinsvetni í andrúmslofti (nr. 514/2010). Önnur loftmengandi efni sem mæld eru í borginni, eins og kolmónoxíð (CO), brennisteinsdíoxíð (SO2) og benzene (C6H6) mælast yfirleitt langt undir viðmiðunarmörkum í Reykjavík.