Svíi stýrir Avtovaz

Bo I Andersson hefur verið ráðinn forstjóri Avtovaz í Rússlandi og tekur við um áramótin. Hann er fyrsti forstjóri fyrirtækisins sem ekki er rússneskur.

Avtovaz varð upphaflega til í samvinnu Sovétstjórnarinnar og Fiat á Ítalíu. Reist var heil bílaframleiðsluborg – Togliatti -  til að framleiða uppfærða gerð af Fiat 124 undir nafninu Lada. Lada bílar eru enn framleiddir, en auk þess eru í verksmiðjunni framleiddar ýmsar tegundir vestrænna bílategunda og –gerða. Aftovaz er nú að stórum hluta í eigu Renault-Nissan.

Bo I. Andersson var fyrr á árum einn af æðstu stjórnendum Saab í Svíþjóð og síðan innkaupastjóri General Motors. Undanfarin ár hefur hann verið forstjóri bílaverksmiðjunnar GAZ í Rússlandi sem áður framleiddi Rússajeppa og Volgur en framleiðir nú aðallega vörubíla og rútur. Þegar hann kom að GAZ var verksmiðjan rekin með miklu tapi sem nú hefur verið snúið við og reksturinn skilar góðum hagnaði.