Vegna umfjöllunar um svik og pretti bensínlaus.is

Viðvaranir FÍB áttu rétt á sér

Vegna fréttar Fréttablaðsins um meint stórfelld svik bílasölunnar Bensínlaus.is þykir ástæða til að rifja upp viðvörunarorð FÍB þegar Alþingi breytti lögum um bílasölu 5. mars 2020.

Með lagabreytingunni voru skilyrði um leyfisveitingu og starfsábyrgðartryggingu fyrir sölu notaðra bíla felld niður. Fullyrt var að önnur lög um neytendavernd veittu betri tryggingu. Fullyrt var að við sölu notaðra bíla væri ekki um verulegar fjárhæðir að ræða.

FÍB og Bílgreinasambandið vöruðu Alþingi sterklega við afnámi þessara skilyrða. Bent var á að kröfurnar hefðu skapað aðhald að sölufyrirtækjunum og stuðlað að almennu trausti í viðskiptum með notuð ökutæki. Þá væru skilyrðin síður en svo íþyngjandi fyrir bílasölur. Bent var á að árleg velta í viðskiptum með notuð ökutæki væri á bilinu 60-80 milljarðar króna og því um verulega fjárhagslega hagsmuni að ræða.

Sérstaklega bentu FÍB og Bílgreinasambandið á að með brottfalli þessara skilyrða væri opnað upp á gátt fyrir svikahrappa, líkt og þekktist víða erlendis.

Í sameiginlegri umsögn FÍB og Bílgreinasambandsins sagði meðal annars um ástandið víða á Norðurlöndunum: „Varla líður sú vika að ekki birtist fréttir af óprúttnum aðilum sem blekkja fólk til að afhenda sér peninga eða afsala sér bílum og láta sig síðan hverfa. Þjófarnir hafa þróað mjög fullkomnar aðferðir til að virka trúverðugir. Þessi svikastarfsemi hefur farið hratt vaxandi, sérstaklega á netinu og flokkast orðið með algengustu netglæpum. Almenningur í þessum löndum hefur engin tök á því að kanna hvort um raunverulega starfsemi er að ræða eða ekki, þar sem þessi starfsemi er ekki skráð sérstaklega.“

Í mai 2021 birti FÍB á vefsíðu sinni ábendingu til neytenda vegna bílakaupa frá útlöndum í gegnum þriðja aðila á borð við Bensínlaus.is. Benti FÍB á að fólk skyldi hafa varann á sér í viðskiptum þar sem bílasalinn hefur aðeins milligöngu um viðskiptin, jafnvel með nýja bíla og tekur enga ábyrgð. Þar sagði m.a.: „Ef bíllinn reynist haldinn galla af einhverju tagi eða vanefndir af öðru tagi eru af hálfu seljanda þá getur kaupandi yfirleitt ekki beint kröfu sinni neitt annað en að hinum erlenda aðila. Afar kostnaðarsamt og erfitt getur reynst fyrir einstakling hér á landi að fylgja eftir slíkri kröfu og réttarstaða hans getur jafnframt verið verri, enda óvíst að seljandinn sé þá af því tagi að neytendalöggjöf ytra eigi við. Enn fremur eru miklar líkur á að aðstaðan sé sú að ágreiningur eigi ekki undir íslenska dómstóla.“

Ennfremur sagði í fréttinni: „Annað sem vert er að gjalda varhug við er að í einhverjum tilvikum er kaupendum gert að greiða talsverðar og jafnvel verulegar fjárhæðir, án þess að nokkur trygging sé fyrir afhendingu bifreiðarinnar. Þá verður ekki séð að sérstök trygging sé lögð fram fyrir afhendingu eða endurgreiðslu ef ekki getur orðið af afhendingu. Með öðrum orðum er um áhættusöm viðskipti að ræða, ekki síst í ljósi þess að iðulega er seljandi þjónustunnar ekki með miklar eignir á bakvið sig og fullnusta mögulegra krafna getur þannig orðið örðug.“

Það vekur athygli að lög um afnám skilyrða fyrir bílasölu voru birt í Stjórnartíðindum 16. mars 2020 og þann 19. mars 2020 var Bensínlaus ehf stofnað og skráð í atvinnugreinaflokknum bílasala.