Svissneskur rafmagnssportbíll

Á síðustu Genfarbílasýningu var svissneskur rafknúinn tveggja manna sportbíll, Lampo,  sýndur sem hugmynd. Á sömu sýningu sem opnuð verður 4. – 14. mars verður rafmagns-Lampo enn sýndur en nú í talsvert endurbættri útgáfu, enda er búið að reynsluaka frumeintakinu frá því í fyrra um alla Evrópu í heilt ár. Nýja gerðin er enn aflmeiri, sneggri og léttari á sér en áður. Og nú er hann fjórhjóladrifinn og aflið samtals 408 hö, vinnslan er 640 Nm og fimm sekúndur er hann í hundraðið.

 Bíllinn er byggður á ítalska málssvæðinu í Sviss af bílahönnunarfyrirtæki sem heitir Protoscar SA. Protoscar sérhæfir sig í hönnun umhverfismildra bíla, yfirleitt rafknúinna. Nafnið Lampo þýðir elding á Ítölsku. Eins og Tesla er bíllinn tveggja manna sportbíll en þar endar samanburðurinn því Lampo er með tvo rafmótora. Annar er fyrir framhjólin en hinn fyrir afturhjólin. Teslan er því 340 kílóum léttari. Tesla hefur einn mótor fyrir afturhjólin ein og því er meira rými aflögu fyrir rafhlöður og Teslan því öllu langdrægari – kemst helmingi lengri leið á rafhleðslunni en Eldingin sem kemst 200 kílómetra.

http://www.fib.is/myndir/Lampo_laddstolpe.jpg

Hleðslupóstur frá svissneska raf- fram- leiðslufyrirtækinu Alpiq. Í Sviss fyrirfinnast 600 svona hleðslupóstar. Í öllu Evrópska efnahagssvæðinu eru hins vegar einungis 1.500 rafhleðslustöðvar handa almenningi. Á svona hleðslupósti er hægt að fylla á tóma geymana í Lampo á sex klst.

 Verðið á Tesla Roadster í Evrópu fyrir utan skatta og tolla er um 14,9 milljónir ísl. kr. Á Íslandi þarf ekki að greiða vörugjald við innflutning á rafbílum og öðrum bílum sem nýta innlenda orku. Aðeins 25,5 prósenta virðisaukaskattur leggst ofan á verð bílsins að viðbættu flutningsgjaldi til landsins sem gera má ráð fyrir að sé ca. 250-300 þús. kr.

Ekkert verð hefur enn verið gefið upp fyrir Lampóinn, eða Eldinguna enda er bíllinn í raun enn þróunarverkefni sem ekki er væntanlegt á markað strax. Fjöldi stórra fyrirtækja í Evrópu kemur á einn eða annan hátt að verkefninu en talsmenn þess fullyrða að ekki hafi í annan tíma verið búinn til bíll sem nýtir orkuna jafn vel og þessi bíll. Þeir segja að miðað við það að rafmagnið á bílinn sé búið til með því að brenna jarðefnaeldsneyti (olíu, kolum og/eða gasi) verði koldíoxíðútblástur frá næstu kynslóð þessa bíls einungis 7 grömm á hvern ekinn kílómetra. Sá bíll á að koma á markað í takmörkuðu upplagi eftir ca 3 ár.

Þegar ekið er í rafbíl er nauðsynlegt að vita nákvæmlega hversu langt er hægt að komast á því rafmagni sem á geymunum er hverju sinni. Í Lampo er búnaður sem tengdur er staðsetningar- og leiðsögukerfi bílsins. Upplýsingar um landslagið - brekkur upp og niður á leiðinni framundan eru í kerfinu sem metur brekkurnar inn í útreikningana á því hversu langt verður komist á rafmagninu á geymunum. Kerfið sýnir einnig hvar hleðslustöðvar er að finna á akstursleiðinni.

http://www.fib.is/myndir/Lampo_teikning.jpg

Innviðir Lampo2. Aflvélarnar (2) og rafhlöðurnar (1) eru frá svissneska fyrirtækinu Brusa. Í bílnum eru þrennskonar hleðslutæki (8) fyrir mismikinn hleðslustraumstyrk.  Hraðhleðslutækið (4) getur á tíu mínútum hlaðið inn á geymana 80 kílówöttum sem duga til 100 km aksturs. Álagsjafnari (PDU) 6) miðlar orkunni milli fram- eða afturhjóla eftir akstursaðstæðum. Við hröðun miðlar tækið meiri straumi til afturhjólamótorsins en minni straumi á jöfnum aksturshraða. VCU (3) stjórnar rafspennunni inn á mótorana. Rafhlöðurnar eru líþíumrafhlöður sem geta geymt 32 kílóWattstundir. Úttaksspennan er 400 volt.