Systurfélög FÍB mótmæla þýskum veggjöldum

Þýska ríkisstjórnin undirbýr nú frumvarp um gjaldtöku af erlendum bílum sem aka á þýsku hraðbrautunum. Evrópsku bifreiðaeigendafélögin, syssturfélög FÍB í ríkjum umhverfis Þýskaland mótmæla gjaldtökuhugmyndinni og segja hana stríða gegn lögum og reglum Evrópusambandsins.

Gjaldtökumálið er einskonar ávöxtur kosningabandalags flokks Angelu Merkel kanslara. Bandalagsflokkar hennar gerður það að skilyrði fyrir stuðningi sínum að ef kosningasigur ynnist, skyldi farið í það að afla fjár með veggjöldum til að halda hraðbrautunum við. Veggjöldin skyldu leggjast á þann aragrúa erlendra bíla sem um hraðbrautirnar fara á hverju ári. En eins og bifreiðaeigendafélögin benda réttilega á er ólöglegt að mismuna fólki eftir þjóðerni með þessum hætti. Því vinni þýska ríkisstjórnin að málinu í anda lagatæknilegra hártogana. Þær felist í því að leggja hraðbrautaskattinn á alla bíla, þýska sem erlenda, en endurgreiða hann síðan þýskum bifreiðaeigendum í gegn um skattkerfið. Þær upphæðir sem talað er um að rukka bifreiðaeigendur um eru 100 evrur fyrir heilt ár, 30 evrur sem gilda í tvo mánuði og í þriðja lagi 10 evrur sem gilda fyrir hraðbrautaakstur í 10 daga.

Þessari lagatækni mótmæla félögin harðlega og segir að útkoman verði engu að síður sú að mismuna fólki eftir þjóðerni. Reglur Evrópusambandsins eigi að tryggja frjálsa för allra borgara um lendur sambandsins og vegaskattar á útlendinga eina sé skýlaust brot gegn reglunum, þótt reynt sé að dylja þá með lagatæknilegum flækjum. En þar fyrir utan þá greiði útlendingar til viðhalds þýsku hraðbrautanna á sama hátt og heimamenn þegar þeir kaupa eldsneyti á bílana á ferðum sínum um Þýskaland. Árlegar tekjur þýska ríkisins af eldsneytisgjöldunum séu þar að auki helmingi hærri en kostnaður þess er af bílaumferðinni. Eldsneytisgjöldin skili 53 milljörðum evra í ríkissjóð en einungis 19 milljörðum þeirra sé varið til viðhalds og nýframkvæmda í vegakerfinu.

ADAC, systurfélag FÍB í Þýskalandi er sömuleiðis mótfallið gjaldtökuhugmyndinni og hefur reiknað út að tap verði af henni verði henni hrint í framkvæmd. Brúttótekjur af gjaldtökunni verði í kring um 3 milljarðar evra. Af því verði þýskum bifreiðaeigenum endurgreiddir 2,77 milljarðar. Þá muni rekstur innheimtukerfisins kosta um 300 milljónir evra árlega. Niðurstaðan er því sú að samfélagið muni tapa á þessu fráleita ævintýri.