Tækifæri fyrir Ísland og sjálfakandi bíla

Í síðasta FÍB blaði var áhugvert og ítarlegt viðtal við Anders Eugensson sérfræðing og stjórnanda í öryggis- og þróunarmálum hjá bílaframleiðandanum Volvo.  Í viðtalinu var farið yfir framtíð sjálfkeyrandi bíla og þróun öryggismála i samgöngum.  Fram kom að miklar breytingar eru framundan varðandi þróun ökutækja og í aksturstækni.  Þessar breytingar munu leiða af sér nýjar lausnir og nýja hugsun í samgöngum á landi.

Í viðtalinu var þeirri spurningu beint til Anders m.a.  hvort Ísland með sitt frumstæða vegakerfi geti tekið þátt í þessari tækniþróun? Ljóst er að fram að þessu hafa tilraunir með nýjar tæknilausnir að mestu verið bundnar við vandaða vegi og hraðbrautir í nágrenni stórborga. 

Hvernig passar Ísland  inn í jöfnuna?  Viða skortir veglínur, vegaxlir og bundið slitlag á þjóðvegum landsins og enn eru allt of margar einbreiðar brýr.  Anders sagði tækifærin sannarlega til staðar. Nýlega hefði hann kynnt tæknilausnir í Finnlandi sem miða að því að yfirstíga hindrandir fyrir sjálfakandi bíla á snævi þöktum og grófum sveitavegum. Aðstæður sem Íslendingar þekkja vel. 

Allt mun þetta taka sinn tíma en er tæknilega framkvæmanlegt. Anders sagði að nýta mætti gervihnattagögn um illa eða rangt merkta vegi til að hanna stafrænan vegagrunn.  Til að auka nákvæmni gagnanna er æskilegt að samkeyra gervihnattaupplýsingarnar við raunveruleg akstursgögn líkum þeim sem safnað hefur verið í öryggismati og kortlagningu EuroRAP verkefnis FÍB á íslenska vegakerfinu.

Þetta samtvinnaða gagnsafn þarf að vera aðgengilegt í gagnaskýi. Notendur bíla í dag með einhverskonar ökumannsaðstoð þekkja það að við ákveðnar veðurfarsaðstæður geta skynjarar dottið út og þar með hættir aðstoðin að virka. Með samhæfðum gagnaupplýsingum getur bíllinn lesið vegi óháð veðri og færð.

EuroRAP og samtvinnuð gagnasöfn

Fram kom í viðtalinu við Anders að mikilvægt sé að stjórnvöld, samgönguyfirvöld, veghaldarar og bílaframleiðendur taki höndum saman og samtvinni gagnasöfn.  Það flýtir þróuninni og eykur öryggi.  „Þróunin verður mun hraðari ef við getum tengt okkar ský hjá Volvo við önnur ský“. Með þessu eru öll samskipti í umferðinni auðvelduð og aukin. Upplýsingasamskipti á milli bíla, við þjónustuaðila, veghaldara o.fl.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd getur bíll sem kemur að hálkubletti aðvarað aðra bíla í nágrenninu, sem og viðhaldsþjónustu í rauntíma. Þessi kortlagning þarf að vera samvinnuverkefni til að auka gagnaöryggi. Þegar eru í gangi tilrauna- og samstarfsverkefni af þessu tagi í Svíþjóð og Noregi og þar hefur hraði og nákvæmni tilkynninga  til viðhaldsaðila batnað verulega. Hægt er að fylgjast með í rauntíma hvort viðhaldsbeiðnum, t.d. hálkueyðingu á vegi sé sinnt á réttum stað á réttum tíma.  Hér á landi þarf að koma á samstarfi milli stjórnvalda og bílaframleiðenda um samhæfðan gagnagrunn með upplýsingum um ástand vega, legu vega og umferðarmagn.

Nánari upplýsingar má finna hér í viðtalinu við Anders Eugensson í nýjasta FÍB Blaðinu.