Tafir í framleiðslu við smíði á Model 3

Miklir erfiðleikar steðja að bandaríska rafbílaframleiðandanum Tesla um þessar mundir. Fyrirtækið stendur andspænis miklum töfum við smíði á Model 3 bílnum sem átti heldur betur á slá í gegn. Aðeins hefur tekist að smíða um 270 bíla á síðasta ársfjórðungi þessa árs en í áætlunum átti að framleiða um 1500 bíla.

Tafir í framleiðslunni gera það að verkum að um sex hundruð starfsmönnum hefur verið sagt upp störfum. Gríðarleg eftirspurn hefur verið eftir þessum nýja bíl en núna er ljóst að Tesla getur ekki mætt henni sem veldur viðskiptavinum miklum vonbrigðum.

Þrátt fyrir mótbyrinn er Elon Musk, stofnandi og aðalstjórnandi Telsa, bjartsýnn á að koma afköstum á smíði bílsins í rétt horf á ný og stefnt sé að því að framleiða tíu þúsund eintök á viku. Engu að síður séu þessar tafir mikið áfall fyrir framleiðendur bílsins. Fyrstu bílarnir áttu að koma á markað um mitt næsta ár.

Yfir 400 þúsund pantanir hafa borist í nýjan bílinn en þetta verður fyrsti bíllinn frá Tesla sem mörgum verður gert kleift að kaupa en verðið er áætlað frá tæpum fjórum milljónum króna. Bíllinn á að komast 350 km vegalengd á fullri hleðslu og hann nær 100 km hraða á undir sex sekúndum.

Elon Musk forstjóri Tesla segir fyrirtækið stefna að því að framleiða um 500 þúsund bíla fyrir lok 2020. Þess má og geta að Tesla hóf byggingu risa rafhlöðu verksmiðju 2014 í nágrenni Sparks í Nevada.