Takata - loftpúðamartröðin

Síðan 2008 hafa yfir tíu bílaframleiðendur neyðst til að innkalla meir en 31 milljón bíla vegna meintra gallaðra loftpúða. Allar innkallanirnar tengjast aðeins einum framleiðanda loftpúða – hinum japanska Takata. Þetta er orðin viðamesta innköllunarhrina bílasögunnar. Hún snertir alla stærstu bílaframleiðendurna í Japan og Asíu, Ameríku og Evrópu og á þessari stundu er hreint ekki víst að öll kurl séu komin til grafar. Reuters fréttastofan hefur tekið saman og birt atburðarásina á fréttavef sínum í tímaröð.

http://images.bwbx.io/cms/2014-10-29/comp_airbag__01__970-630x420.jpg

Síðla hausts 2008 innkallaði Honda Motor 4.000 Accord og Civic bíla af árgerð 2001. Ástæðan var sú sprengibúnaður Takata loftpúða gæti sprungið og tætt loftpúðann og málmflísar úr sprengibúnaðinum dreifst um farþegarýmið.  

Í maí 2009 lést ung stúlka í Oklahoma þegar loftpúðinn í stýrinu sprakk fyrirvaralaust og málmbrot skutust í háls hennar. Bíll stúlkunnar var Honda Accord árgerð 2001. Bæði Honda og Takata neituðu því að um galla væri að ræða en samþykktu að greiða ótilgreindar dánarbætur.

Í desember 2009 fórst kona í Virginíuríki. Hún ók Honda Accord árgerð 2001 og lenti í minniháttar árekstri. Loftpúðinn sprakk og „sprengjubrot“ úr búnaðinum skutust í háls hennar og rufu slagæð. Fjölskylda hinnar látnu höfðuðu mál á  hendur Honda og Takata árið 2011 og kröfðust rúmlega 75 milljón dollara skaðabóta þar sem þeim hefði verið kunnugt um galla loftpúðanna allt frá árinu 2004. Sátt náðist áður en málflutningur hófst. Samkvæmt henni greiddu Honda og Takata ættingjunum 3 milljónir dollara..

Í febrúar 2010 víkkar Honda út innköllunina frá haustinu 2008.

Í apríl 2011 innkallar Honda 896 þúsund Honda og Acura bíla af árgerðum 2001-2003 til að leita uppi sprengihleðslur fyrir Takata loftpúða sem gætu verið gallaðar. Þessi innköllun var svo útvíkkuð enn í desember sama ár.

Í apríl 2013 innkölluðu Toyota Motor, Honda, Nissan Motor og Mazda Motor 3,4 milljón bíla um allan heim vegna Takata loftpúða. Í maímánuði bætist svo BMW í hópinn. Allt málið er þá farið að hafa mjög slæm áhrif á fjárhag Takata sem tilkynnir um hundruða milljóna dollara tap.

Í september 2013  lést maður á Acura TL fólksbíl. Loftpúðinn í bílnum sprakk út í smávægilegum árekstri á bílastæði og áverkar eftir „sprengjubrot“ í andliti og á hálsi drógu hann til dauða.

Árið 2014

Í júní 2014 víkkaði Toyota út fyrri innköllun og náði hún nú til 2,27 milljón bíla um allan heim. Um svipað leyti hóf bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA að rannsaka hvort lítill eða enginn fyrirvari á sprengingu Takata loftpúða tengdist á einhvern hátt því hversu hátt loftrakastigið væri á notkunarsvæði bílanna. Þann 23. júní víkkuðu Honda, Nissan og Mazda út fyrri innkallanir um 2,95 milljón bíla vehicles sem þar með náði þá til 10,5 milljón bíla á samtals fimm ára tímabili - allt saman út af Takata loftpúðum. 16. júlí innkallaði BMW um 1,6 milljón bíla á heimsvísu. Þann 2. október varð svo enn eitt staðfesta dauðsfallið. Þá lést kona í Orlando í Flórída af áverkum frá sprengihleðslu Takata loftpúða eftir árekstur. Bíll konunnar var Honda Accort árgerð 2001.

22. október víkkaði NHTSA út innkallanir undangenginna 18 mánaða vegna Takata loftpúða. Þar með náði hún orðið til 7,8 milljón bíla í Bandaríkjunum. Þann 27. okt. Var höfðað opinbert mál í Florida á hendur Takata og nokkrum bílaframleiðendum, þar á meðal Honda og Toyota fyrir að hafa haldið leyndri vitneskju um gallaða loftpúða. Þann 7. nóvember birtist svo grein í New York Times um að yfirmenn Takata hefðu skipað tæknifólki að eyðileggja skýrslur um prófanir sem höfðu leitt í ljós sprungur og ágalla í sprengihleðslum fyrir loftpúða. Í kjölfar þessa kröfðust þingmenn Demókrata þess að lögreglurannsókn hæfist á vinnubrögðum Takata.

Þann 13. nóvember tilkynnti Honda um kona í Malasíu hefði látið lífið af sárum sem hún hlaut af „sprengjubrotum“ frá loftpúðanum í bíl af gerðinni Honda City. Þótt Takata segðist í kjölfarið hafa endurbætt sprengibúnað púðanna ákvað Honda að víkka enn út sínar fyrri innkallanir sem eftir það náði til 10 milljón Honda bíla.

Það sem af er þessu ári, 2015 hefur eitt dauðaslys enn orðið af völdum loftpúða-sprengihleðslu. Það var í febrúar og í því lést maður í Houston í Texas. Hann ók Honda Accord árgerð 2002 með Takata loftpúðum. Í framhaldi af því kváðust nýir yfirmenn Takata myndu enn herða leitina að gölluðum loftpúðabúnaði til að skipta út fyrir gallalausan. En þolinmæði bandarískra var komin að þrotum og þrátt fyrir góð orð Takata um herta leit, voru lagðar dagsektir á Takata frá 20. febrúar fyrir það að ganga óheilir til samstarf við yfirvöld. Sektirnar nema 14 þúsund dollurum á dag. Þá hefur Honda ráðið bandarískt verkfræðifyrirtæki til að rannsaka gallana í takata loftpúðakerfinu. Loks hefur Toyota boðað nýja innköllun á heimsvísu. Hún mun ná til 5 milljón bíla, m.a. af gerðunum Corolla og Vitz árgerð 2003-2007. Sömuleiðis ætlar Nissan að innkalla 1,56 milljón bíla til viðbótar. Þar með verða innkallanir vegna Takata lofpúða orðnar 31 milljón á átta árum.

Kenningar eru uppi um að þegar öll kurl koma til grafar megi búast við að innkallanirnar geti orðið enn fleiri eða allt að 34 milljónir. Þeir bílar sem eru með Takata loftpúða eru BMW, Chrysler, Mercedes vörubílar, Ford, General Motors (átta vörumerki), Honda, Mazda, Mitsubishi, Nissan, Subaru og Toyota.